Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Tónleikahald stærsta tekjulind tónlistarmanna

Mynd: Atli Þór Ægisson / ruv.is

Tónleikahald stærsta tekjulind tónlistarmanna

23.03.2018 - 19:31

Höfundar

Tónleikahald er langstærsta tekjulind íslenskra tónlistarmanna, samkvæmt nýrri skýrslu. Afleiddar tekjur af tónlist nema um þremur milljörðum króna á ári.

Íslenskir tónlistarmenn hafa getið sér gott orð erlendis undanfarna áratugi og fjölmargir erlendir ferðamenn koma hingað til lands til að sjá og upplifa íslenska tónlist. En hversu miklu skilar tónlistarsköpun þjóðarbúinu og tónlistarmönnunum sjálfum? Leitast er við að svara þeim spurningum, og fleirum, í skýrslu um íslenska tónlistariðnaðinn sem var kynnt í dag.

„Niðurstöðurnar eru þær að tónlist skiptir máli sem atvinnugrein, ekki bara sem listgrein, sem við drögum heldur ekki í efa. Og við sjáum að hér er mjög öflugt tónlistarlíf,“ segir Margrét Sigrún Sigurðardóttir, lektor við HÍ og forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar skapandi greina.

Í skýrslunni kemur fram að áætlaðar heildartekjur íslenska tónlistariðnaðarins árið 2016 hafi numið þremur og hálfum milljarði króna. Inni í þeim tölum eru ekki risar íslenskrar tónlistar, á borð við Björk, Sigur Rós og Kaleo, enda eru tekjur þeirra skráðar hjá erlendum höfundaréttarsamtökum. Tónleikahald var langstærsta tekjulind tónlistarmanna, alls 2 milljarðar eða 57%. Höfundarréttur skilað 790 milljónum eða 22% og tónlistarútgáfa 730 milljónum eða 21%.

„Tekjur koma ekki lengur, í sama mæli, af plötusölu eins og þær gerðu. Stafræn dreifing er núna fyrst að fara fram úr "físísku" sölunni. Hún hefur ekki náð þeim hæðum sem hún var í áður en starfræna dreifingin kom til. Og þetta hefur gert það að verkum að lifandi flutningur er orðinn langmikilvægasta tekjulind tónlistarmanna,“ segir Margrét Sigrún.

Þá kemur fram í skýrslunni að áætlaðar afleiddar tekjur af tónlist árið 2016 hafi numið 2,8 milljörðum króna.

Finnst þér þessi skýrsla senda einhver skilaboð til stjórnvalda?
„Já. Hún sendir þau skilaboð að veltan er ansi mikil í þessum geira. Og framtíðin er mjög björt. Þetta er ekki bara listgrein heldur líka mjög öflug starfsgrein,“ segir Sigtryggur Baldursson, framkvæmdastjóri ÚTÓN.

„Það er töluvert stökk frá því að vera áhugamaður í tónlist yfir í að hafa fullt starf af tónlist og það þarf kannski að styðja við það að fleiri geti gert það. Og svo er mikilvægt að styðja við tónleikahaldið. Það er tekjulind og líka innihald í ferðamennsku. Þannig að ég held að það sé mikilvægast að styðja við grasrótina í tónleikahaldi,“ segir Margrét Sigrún.