Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tómstundir felldar inn í skólastarf á Hólmavík

10.09.2018 - 11:00
Að loknum skóladegi allra grunnskólabarna á Hólmavík eru þau einnig búin að fara í íþróttir, klúbbastarf og í tónlistartíma. Tómstundafulltrúi segir markmiðið vera að jafna tækifæri barna til tómstundaiðkunar. 

 

Samfelld lota skólastarfs, íþrótta og tónlistarnáms

Í Grunnskólanum á Hólmavík tíðkast nú að tengja saman skólastarf og tómstundir á milli klukkan átta og fjögur. „Þetta gengur út á að þau nái skólastarfi, tómstundum og íþróttum í einni samfelldri lotu,“ segir Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir, skólastjóri Grunnskólans á Hólmavík. „Núna er skólastarfið og tómstundastarfið ein heild, við vinnum saman allt starfsfólkið [...] og fundið út hvernig þetta kemur best út fyrir börnin,“ segir Íris Ósk Ingadóttir, tómstundafulltrúi Strandabyggðar. Hún segir að fyrirkomulagið jafni aðgang barna að tómstundastarfi óháð búsetu og fjölskylduhögum.

Í boði fyrir alla nemendur

Æ fleiri skólar bjóða upp á samfelldan dag en það er oftast einungis í boði fyrir yngstu börnin. „Við brjótum upp daginn [í hádeginu] fyrir fyrsta til fjórða bekk. En að loknum skóla hjá fimmta til tíunda bekk þá fá þau sína tómstund,“ segir Hrafnhildur. „Núna er það [tómstundirnar] bara eftir klukkan hálf þrjú og búið fjögur,“ segir Árný Helga Birkisdóttir, nemandi í 6. bekk. Og hvernig finnst þér það? , „Gott!“ Hverju breytir það fyrir þig? „Þá hefur maður tíma á kvöldin til að gera eitthvað,“ segir Árný Helga. „Mér finnst þetta ganga vel,“ segir Hrafnhildur. Og krakkarnir ekki orðnir þreyttir þótt þeir þurfi að mæta aftur í tíma [eftir frístund] eftir hádegi? „Nei alls ekki, jafnvel alveg full af orku eftir hádegið að byrja aftur.“

Þurfa ekki að bíða eftir íþróttum og tómstundum

Krakkarnir skipta um umhverfi, dagurinn styttist og nú þurfa krakkar sem búa utan Hólmavíkur ekki að bíða í bænum fram eftir degi til að fara í tómstundir. „Ég fór oftast bara heim til vinar míns,“ segir Þorsteinn Óli Viðarsson, nemandi í 6. bekk. En komstu þá ekki stundum seint heim á kvöldin? „Jú, ég kom kannski svona sex.“ Þannig að það hefur breyst? „Já,“ segir Þorsteinn. Krakkar geta því verið komnir heim uppúr klukkan fjögur og foreldrar þurfa ekki að verja jafn miklum tíma í að skutla og sækja. „Við vonum að þetta sé í hag fyrir foreldrana en númer eitt tvö og þrjú að þetta sé ríkulegur dagur fyrir krakkana og að þau fái öll tækifæri sem þau geta fengið.“  

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður