Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Tómas Guðbjartsson maður ársins

31.12.2014 - 15:50
Mynd með færslu
 Mynd:
Tómas Guðbjartsson prófessor og yfirlæknir á Landspítalanum var valinn maður ársins af hlustendum Rásar 2 nú síðdegis. Hann segir að með valinu sé verið að verðlauna allt heilbrigðiskerfið.

Tómas og fleiri starfsmenn Landspítalans björguðu lífi manns, með undraverðum hætti, sem var stunginn með hnífi í hjartað. Í myndbandi sem tekið var upp og sýnt í Kastljósi sést hvernig Tómas  hnoðaði hjarta mannsins með berum höndum til að koma af stað blóðflæði til heilans.  Foreldrar Tómsar tóku við viðurkenningunni í dag, en Tómas sem er staddur erlendis þakkaði fyrir sig í símaviðtali á Rás tvö í dag.

„Ég átti ekki von á því að þessi frétt og að þessi atburður myndi vekja svona mikla athygli en þetta er auðvitað bara mjög ánægjulegt, bæði fyrir mig en ekki kannski síður samstarfsfólk mitt og alla þessa sem vinn a á Landspítalanum og í heilbrigðiskerfinu almennt. Ég lít á að það sé ekki bara verið að verðlauna mig heldur allt þetta kerfi okkar sem ég held að fólki þyki vænt um og hafi áhyggjur af eins og staðan er í dag.“

63 voru tilnefndir í valinu en Tómas vann yfirburðasigur. Næst flest atkvæði fengu björgunarsveitarmenn á landinu öllu og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var í þriðja sæti í valinu.Þetta er í tuttugasta og sjötta sinn sem hlustendur Rásar 2 velja mann ársins. Aníta Hinriksdóttir hlaupari hlaut nafnbótina í fyrra og Eiríkur Ingi Jóhannsson sjómaður árið 2012.