Tölvur í fangelsum bannaðar

18.10.2013 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Vegna ítrekaðra brota fanga á reglum um tölvunotkun ætlar Fangelsismálastofnun að banna allar tölvur í fangelsum landsins. Einnig er til skoðunar að fjarlægja lyftingalóð úr fangelsum.

Páll Winkel fangelsismálastjóri sagði í samtali við Morgunblaðið að meginreglan væri að banna allar tölvur, bæði fartölvur og borðtölvur, en þeir sem stunda nám geti sótt um að hafa fartölvur. Tölvurnar verði teknar af þeim að kvöldi og geymdar yfir nóttina. Reglugerðin tekur gildi 15. janúar. 

Eins og fram hefur komið í fréttum RÚV hafa fangar ítrekað brotið reglur um tölvu- og netnotkun. Dæmi eru um að fangar á Litla-Hrauni noti Facebook, þótt netnotkun sé bönnuð í fangelsinu.

Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður á Litla-Hrauni, segir flesta nota tölvurnar til náms. Með nýju reglunum eigi að gera tilraun til að stemma stigu við því að þær tölvur séu misnotaðar. „Það er eitthvað um það að fangar séu að hóta eða senda skilaboð sem ekki eru sæmileg,“ segir Margrét. 

Í samtali við Fréttablaðið í dag segir Páll Winkel nauðsynlegt að bregðast við nýrri tegund glæpamanna, sem hafa gerst sekir um svo hrottafengin afbrot að það þurfi að tryggja að slíkir einstaklingar séu teknir úr umferð með afgerandi hætti. Ekki náðist í Pál vegna málsins í dag. 

Einnig kemur til greina kemur að fjarlægja öll lyftingalóð úr fangelsum landsins, en fyrir tveimur árum voru öll laus lóð bönnuð. Margrét Frímannsdóttir segir nauðsynlegt að bjóða upp á líkamsrækt í fangelsunum, þótt lóðin séu bönnuð. „Það hefur reynst mörgum mjög gott, að fara í líkamsræktarsal og fá þar útrás. Það má náttúrulega vanda betur valið á þeim líkamsræktartækjum sem boðið er upp á, vera með tæki sem eru ekki bara til að byggja upp vöðvamassa,“ segir hún.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi