Tölva hafði betur gegn læknum við greiningu

29.05.2018 - 02:11
Mynd með færslu
Sneiðmynd af sortuæxli. Mynd: KGH - Wikimedia
Tölva hafði betur gegn hópi húðsjúkdómafræðinga í tilraun vísindamanna til að bæta greiningar og auka hraða þeirra. Sérfræðingar frá Þýskalandi, Bandaríkjunum og Frakklandi bjuggu til gervigreindarkerfi sem á að geta greint á milli hættulegra áverka og góðkynja. Kerfinu voru sýndar 100 þúsund myndir til þess að læra muninn þar á. Gegn tölvunni var att 58 húðsjúkdómafræðingum frá 17 löndum, og þeim sýndar myndir af illkynja sortuæxlum og góðkynja húðblettum.

Tölvan hafði betur gegn flestum fræðinganna, segir í niðurstöðum rannsóknarinnar sem birt var í læknavísindaritinu Annals of Oncology. Húðsjúkdómafræðingar greindu myndirnar rétt í 86,6 prósentum tilfella að meðaltali, en tölvan náði 95 prósentum rétt. Bæði fóru færri illkynja æxli framhjá tölvunni, og greindi færri góðkynja fæðingarbletti sem illkynja æxli.

Rétt rúmlega helmingur húðsjúkdómafræðinganna var með yfir fimm ára reynslu, 19 prósent þeirra voru með tveggja til fimm ára reynslu og 29 prósent með innan við tveggja ára reynslu. Í niðurstöðum rannsóknarinnar segir að fræðingarnir hafi náð betri árangri þegar þeir fengu nánari upplýsingar um sjúklingana og áverka þeirra. Gervigreind gæti hins vegar reynst bæði fljótlegri og nákvæmari við greiningu á sortuæxlum, og þannig flýtt fyrir því að þau verði fjarlægð áður en þau dreifa úr sér.
Um 232 þúsund tilfelli sortuæxla greinast í heiminum á hverju ári, og yfir 55 þúsund láta lífið vegna þess árlega.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV