Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Töluvert keyrt á kindur

01.08.2017 - 14:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mikið hefur verið um það undanfarið að ekið sé á búfénað á Vestfjörðum. Hlynur Steinn Þorvaldsson, varðstjóri hjá Lögreglunni á Vestfjörðum, segir að svo rammt hafi kveðið að þessu undanfarið að ekið sé á eina til tvær kindur á dag í umdæmi lögreglunnar. Hann biður fólk því að fara varlega til að tryggja öryggi allra. Mikil bílaumferð hefur verið á Vestfjörðum í sumar og hefur það nokkuð að segja um það hversu margar kindur hefur verið ekið á undanfarið.

Talsvert hefur borið á því síðustu ár að keyrt sé á kindur á Vestfjörðum. Fyrri hluta árs í fyrra bárust lögreglu tæplega fimmtíu tilkynningar um að ekið hefði verið á sauðfé. Á sama tíma árið áður voru tilkynningarnar um þrjátíu talsins. 

Bændur fá kindur sínar bættar af tryggingum en lambsmissir getur haft slæm áhrif á kindur, eins og kom fram í umfjöllun RÚV, í fyrra sem sjá má hér til hliðar. Þar kom fram að það eru sjaldnast þeir sem keyra á kindurnar sem tilkynna um áreksturinn. Vegagerðin hefur séð um að girða af nýja vegi sem liggja í gegnum jarðir um leið og leir eru lagðir. Enn eru þó margir eldri vegir þar sem engar girðingar eru. Þó bændur geti óskað eftir fjárstuðningi Vegagerðarinnar til að girða jarðir við vegina getur verið margra ára bið eftir slíkum stuðningi.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV