Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Töluvert að gerast í Bárðarbungu

Mynd með færslu
 Mynd: Björn Oddsson - rÚV
Mikil jarðhitavirkni er enn í Bárðarbungu og vísindamenn fylgjast náið með framvindu mála. Ekki hefur tekist að greina enn hvort jarðhitavatn, sem rennur í Jökulsá á Fjöllum, komi undan Bárðarbungu eða ekki. Björn Oddsson, jarðeðlisfræðingur, segir töluvert að gerast í Bárðarbungu og skjálftarnir hafi alltaf farið stighækkandi. Eldstöðin gæti alveg látið á sér kræla aftur.

Aukin rafleiðni mældist í Jökulsá á Fjöllum í byrjun nóvember og varð hún um tíma tvöföld á við það sem hún er venjulega. Vatnamælingamenn skoðuðu aðstæður og gerðu mælingar í ánni en svo stóð til að fljúga yfir Bárðarbungu til að skoða hana úr lofti og lenda svo við ána til að gera frekari mælingar. Veðrið stóð í vegi fyrir því að þetta yrði gert en á laugardag var farið af stað.

„Þarna loksins opnaðist veðurgluggi til að bæði fljúga yfir Bárðarbungu og skoða þetta, hvernig katlar sem eru í henni hafa myndast og breyst og síðan taka þessi sýni úr Jökulsánni,“ segir Björn Oddsson, jarðeðlisfræðingur, sem fór í leiðangurinn. Eins og sjá má á myndum sem Björn tók í ferðinni er töluverður jarðhiti í sigkötlunum á Bárðarbungu. Í öðrum þeirra sést vatn í botni hans og úr hinum stígur upp gufa.

Mynd með færslu
Bárðarbunga Mynd: Björn Oddsson - RÚV
Gufa stígur upp úr öðrum sigkatlinum í Bárðarbungu
Mynd með færslu
 Mynd: Björn Oddsson - RÚV
Vatn sést í botni annars sigketilsins í Bárðarbungu

„Það er töluvert að gerast í Bárðarbungu  og skjálftarnir hafa alltaf farið stighækkandi, þeir verða stærri og stærri og þarna er náttúrulega stór eldstöð að jafna sig eftir miklar hamfarir og og það ríður á að fylgjast með öllum merkjum sem hún gefur frá sér og þarna voru vísbendingar um jarðhitavatn sem er óvenjulegt í Jökulsá á þessum tíma,“ segir Björn.

Niðurstöður mælinganna á Bárðarbungu og í Jökulsá á Fjöllum liggja ekki fyrir.„Það vildi svo til að á sama tíma fór Öræfajökull að bæra á sér og við töldum svo að það væri mikilvægara að kanna hann og klára greiningar á sýnum sem tengjast honum.“

Mynd með færslu
 Mynd: Björn Oddsson - rÚV
Vísindamenn flugu að Jökulsá á Fjöllum 18. nóvember

Rannsóknir á sigkötlum byggja á mælingum sem lengi hafa verið gerðar úr flugvél Isavia á kötlum Mýrdalsjökuls og Kötlu og hafa verið þróaðar hér á landi. Björn segir að niðurstöður úr þeirri flugvél sýni hvaða katlar sýni breytingar, annaðhvort að dýpka eða minnka og þá sé hugsanlega hægt að rekja vatn á ákveðinn stað.

Þannig að enn sem komið sé ekki vitað hvaðan vatnið kemur. „Nei ekki enn sem komið er en hins vegar hefur rafleiðni farið minnkandi síðustu daga og nálgast eðlilegt gildi,“ segir Björn. Hann segir að Bárðarbunga geti vel látið á sér kræla aftur á næstunni.

Bárðarbunga gæti rumskað aftur

„Þarna er náttúrulega megineldstöð  og hún gaus 2014 og 2015 og stærsta gos í 230 ár, og þetta eru, getum við sagt, mikil átök aftur að taka við kviku inn í sig, og þarna eru stórir skjálftar sem myndast þegar kvikuhólfið þenst út.“

Í raun sé fylgst vel með fimm eldstöðvum um þessar mundir.

„Algengustu eldstöðvarnar eru Grímsvötn, Bárðarbunga,  Katla og Hekla og þetta eru svona virkustu eldstöðvarnar og þær eru vel vaktaðar og svo var náttúrulega Öræfajökull að bætast við.“