Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Tólf þingmenn hætta á Alþingi í dag

Mynd með færslu
 Mynd:
Samkomulag liggur fyrir um að ljúka þingstörfum í dag en þingfundur stóð til klukkan að verða fjögur í nótt. Samkomulagið hefur verið nokkuð lengi í fæðingu.

Það hafa verið mörg stór mál á samningaborðinu síðustu daga og vikur. Nægir þar að nefna heildarlög um náttúruvernd sem fara í gegn en verða lögfest síðar og það frumvarp tekur einhverjum breytingum, frumvörp atvinnuvegaráðherra um kísilver og atvinnuuppbyggingu á Bakka fara í gegn og furmvarp um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala. Þá er stefnt að því að frumvörp um opinbera háskóla, fjölmiðla, og fjármálafyrirtæki verði að lögum í dag.

Ríkisstjórnin sem í dag er minnihlutastjórn, ólíkt því þegar hún tók við með 34 þingmanna meirihluta, hefur átt erfitt að koma málum í gegn. Nú er alveg ljóst að stóra kvótafrumvarpið verður ekki að lögum, ekki vatnalög, ekki heldur breyting á lögum um útlendinga og happdrættisstofa. Engin heildarendurskoðun á stjórnarskrá verður samþykkt á þessu þingi og í upphafi þingfundar var felld dagskrártillaga þingmanna Hreyfingarinnar að taka það mál strax á dagskrá. Samkomulag er um breytingarákvæði stjórnarskrár þar sem þröskuldar þeirra breytinga eru hækkaðir. 

Að minnsta kosti 12 þingmenn eru að hætta á Alþingi í dag og nægir þar að nefna Árna Johnsen, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, Siv Friðleifsdóttur, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Þuríði Backman að ógleymdri Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra sem í dag lýkur þingstörfum eftir 35 ára samfellda þingsetu, lengst allra kvenna.  

Þingfundi sem átti að hefjast klukkan eitt var frestað til klukkan tvö. Enn er verið að semja um ýmis atriði og halda nefndafundi til þess að ganga frá málum svo hægt sé að ganga til umræðu og atkvæðagreiðslu.