Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tólf söfn sem eru aðgengileg ókeypis á netinu

Mynd með færslu
 Mynd:

Tólf söfn sem eru aðgengileg ókeypis á netinu

16.01.2019 - 15:59

Höfundar

Samkvæmt alþjóðlegu safnaskránni eru um 55 þúsund söfn í heiminum, starfrækt í um 137 löndum. Það er yfirþyrmandi tilhugsun fyrir unnendur lista og menningar og ein manneskja getur aðeins heimsótt brot af þeim fjölda á ævinni, þó að hún leggi sig fram. En sum söfn eru í „skýinu“ og á stafrænni öld hefur aðgengið aldrei verið betra.

Fátt jafnast á við góða safnaferð þar sem fegurstu gripir heimssögunnar eru settir fram í þar til gerðu rými, í samhengi við aðra muni og söguna sjálfa. Það er þó ekki úr vegi að líta á vefsíður stóru safnanna sem mörg hver bjóða upp á yfirlit yfir safnkostinn og stafræna upplifun í glæsilegri framsetningu.

Louvre-safnið í París

Louvre-safnið er eitt stærsta safn heims og eitt af helstu kennileitum Parísarborgar. Safnið býður upp á ókeypis stafræna skoðunarferð þar sem notendum gefst færi á að upplifa frægasta safnkostinn í 360 gráðu framsetningu. Þá er bara að kaupa sér góðan franskan ost, koma sér vel fyrir á sófanum og skella sér í eins og eina Parísarferð heima í stofu.

Guggenheim-safnið í New York

Guggenheim-byggingin sjálf, teiknuð af Frank Loyd Wright, er heimsóknarinnar virði út af fyrir sig. Hluti sýninga safnsins er annars aðgengilegur almenningi og nemendum sem vilja kynna sér framboðið rafrænt, meðal annars verk eftir Franz Marc, Piet Mondrian, Pablo Picasso og Jeff Koons.

Mynd með færslu
 Mynd:
Frá sýningu á verkum Jeff Koons í Ósló.

Bandaríska þjóðlistasafnið

Bandaríska þjóðlistasafnið í Washington hefur haldið úti opnum stafrænum sýningum á vef sínum en öll starfsemi safnsins liggur nú niðri vegna lokunar alríkisstofnana Bandaríkjanna. Lokunin hefur staðið yfir í 25 daga en alríkisstofnanir hafa aldrei verið lokaðar jafn lengi og nú. Safnið er í Washington D.C. og þar má finna verk eftir marga stærstu meistara heimssögunnar, bæði á farandsýningum og í föstum safnkosti.

Breska listasafnið í London

Breska listasafnið, í daglegu tali „British museum“ býður upp á nokkra af sínum safngripum í stafrænni útgáfu. Má þar nefna yfirlitssýningu á afrískum textíl og sýningu á munum frá fornu borgunum Pompeii og Herculaneum sem hurfu undir ösku í hrikalegu eldgosi árið 79 eftir Krist. Þá hefur safnið verið í samstarfi við Menningarstofnun Google þar sem boðið er upp á rafrænar skoðunarferðir og stuðst við sömu tækni og í „Götusýn Google“ (e. Google Street View).

Smithsonian-náttúruminjasafnið í Washington

Eitt vinsælasta safn heims er náttúruminjasafnið í Washington. Þar má nálgast brot af safnkostinum með stafrænum hætti en safnið býður upp á glæsilegt 360 gráðu ferðalag um allt safnsvæðið. Þar má nefna álmu sem tileinkuð er spendýrum, glæsilegan skordýragarð og risaeðlu- og steingervingahluta safnsins. Því miður er stafræna sýningin lokuð sem stendur vegna lokana alríkisstofnana Bandaríkjanna.

Metropolitan-listasafnið í New York

Safnið, í daglegu tali Met-safnið, hýsir fleiri en tvær milljónir verka en það er ekki nauðsynlegt að heimsækja New York til að njóta þeirra. Á vef safnsins má finna stafrænt safn og rafrænar skoðunarferðir um hluta safnsins sem hýsir frægustu verkin. Þar má nefna verk eftir Vincent Van Gogh, Jackson Pollock og Giotto di Bondone. Þá er rétt að nefna að safnið hefur líkt og British museum hafið samstarf við Menningarstofnun Google um að koma enn þá stærri hluta safngripa á stafrænar veitur.

Mynd með færslu
 Mynd:
Safngestur virðir fyrir sér verk á Dalí-safninu í Figueres.

Dalí-safnið í Figueres

Dalí-unnendur gætu fagnað því að í Katalóníu má finna Dalí-safnið sem, líkt og nafnið gefur til kynna, er yfirgripsmikið safn verka eftir spænska listamanninn Salvador Dalí. Þar má finna ótal sýningarrými og sýningar á verkum Dalí á mismunandi tímabilum. Safnið heldur þá úti sýningum sem varpa ljósi á líf listamannsins og að auki er Dalí sjálfur jarðaður á lóð safnsins. Á vef safnsins má fara í stafræna skoðunarferð og sjá nokkrar sýningar, til dæmis á súrrealísku verki sem má lýsa sem ferðalagi um andlit bandarísku leikkonunnar Mae West.

NASA – Geimferðastofnun Bandaríkjanna

NASA hefur frá upphafi verið framarlega í að miðla þekkingu og efni á stafrænum miðlum en slík miðlun til almennings er ein af lögbundnum skyldum stofnunarinnar. Samkvæmt bandarískum lögum eru öll hugverk sem framleidd eru af Bandaríkjastjórn eða einhverri af hennar undirstofnunum (þar með talinni Geimferðastofnun Bandaríkjanna) undanskilin höfundarrétti og þannig er almenningi heimilt að nota þau og birta að vild. Þar undir fellur gríðarstórt safn ljósmynda af starfsemi NASA, vendipunktum í geimferðarsögunni og síðast en ekki síst – af geimnum.

Þá er Geimferðasafnið í Houston með stafrænar sýningar og yfirgripsmikla vefsíðu sem enginn geim-áhugamaður má láta fram hjá sér fara.

Söfn Vatíkansins

Söfn Vatíkansins bjóða upp á sannkallaða veislu fyrir unnendur kirkjulistar en Vatíkanið á gríðarlega veglegt og yfirgripsmikið safn listmuna af öllum toga, málverka og skúlptúra sem hafa verið sérpantaðir af ríkjandi páfum í gegnum aldirnar. Það er til að mynda hægt að skoða Sixtínsku kapelluna, eitt af undrum veraldar, einkakapellu páfa í Róm sem reist var af Sixtusi 4. Hún er skreytt freskum eftir Michelangelo og fleiri þekkta málara. Það er margt vitlausara hægt að skoða á netinu, til dæmis á meðan beðið er eftir strætó.

Bandaríska kvennasögusafnið

Bandaríska kvennasögusafnið býður upp á metnaðarfullar yfirlitssýningar á stafrænum miðlum. Saga bandarískra kvenna í stríði og saga kvenréttinda er þar á meðal viðfangsefna.

Google Art Project – Google í listum

Google er í samstarfi við 60 söfn á alþjóðavísu þar sem dýrgripum úr listasögunni er miðlað í hæstu mögulegu upplausn. Google Art Project miðlar til að mynda listmunum úr Hvíta húsinu, verkum frá Íslamska listasafninu í Qatar og götulistaverkum frá São Paulo í Brasilíu.

Yfirlit yfir aðgengileg söfn má nálgast í gegnum Google Art Project og Menningarstofnun Google.

Reddit - r/Museum

Reddit er opið áhugamannasvæði sem skiptist niður í svokölluð sub-reddit, undirsíður þar sem áhugafólk um allt mögulegt getur komið saman og deilt hugðarefnum sínum. Eitt slíkt er tileinkað stafrænum safnkosti og þar geta áhugasamir gleymt sér löngum stundum yfir merkum verkum héðan og þaðan, en síðan birtir efnið óháð uppruna. Notendur geta síðan kosið áhugaverðasta efnið „upp“. Efninu er því að einhverju leyti gæðastýrt og það sem þykir markverðast lendir efst á síðunni. Hægt er að stilla síðuna þannig að hún raði efninu eftir því hvað er umdeildast, vinsælast eða því sem setið hefur lengst á listum og svo framvegis.

Forsíðumyndin með greininni er fengin af safni Reddit, eftir David Martin. „Dido Elizabeth Belle and her cousin Elizabeth Murray (1779)“.