Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Töldu um 50 hnúfubaka

07.03.2016 - 09:32
Um 50 hnúfubakar svömluðu í kringum hvalaskoðunarbát úti fyrir Reykjanesskaga í liðinni viku. Ari Steinarsson, framkvæmdastjóri ferðaþjónustufyrirtækisins Reykjavik Sailors, segir að jafn stór hópur hafi ekki sést lengi. Sjaldgæft sé að sjá svo marga hnúfubaka saman.

Öll hvalaskoðunarfyrirtækin sem gera öllu jöfnu út frá Reykjavík voru með skip í Sandgerðishöfn þar á fimmtudag, þegar myndskeiðið hér að neðan var tekið, og fluttu rútur þéttsetnar ferðamönnum frá Reykjavík. 

Loðnuskip hafa verið við veiðar á þessum slóðum að undanförnu og því er líklegt að hvalirnir séu að sækja í æti. 

Myndskeiðið er birt með leyfi frá Reykjavik Sailors.  

 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV