Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Töldu sig ekki eiga annan kost en Þ-H leið

22.01.2019 - 17:54
Mynd með færslu
 Mynd: Árni Geirsson - Reykhólahreppur
„Á fundum sem ég hef sótt með Vegagerð ríkisins og samgönguráðherra mátti skilja að búið sé að ákveða skipulagið fyrir sveitarstjórn Reykhólahrepps. [...] ein leið sé í boði og verði hún ekki farin verði engin leið farin og fjármagnið verði flutt í önnur verkefni,“ segir Árný Huld Haraldsdóttir í bókun sinni á sveitarstjórnarfundi Reykhólahrepps í dag. Hún lagði til á fundinum að Þ-H leiðin verði valin fyrir Vestfjarðaveg og var það samþykkt með þremur atkvæðum gegn tveimur.

Á fundinum var lögð fram fundargerð skipulags- húsnæðis- og hafnarnefndar sveitarfélagsins sem vildi að R-leið, sem myndi liggja um byggðina á Reykhólum, yrði sett inn sem aðalskipulagstilaga. Þar kemur fram að listi undirritaður af 62 kosningabærum íbúum hafi verið lagður fram þar sem R-leið er mótmælt. Íbúar á kosningaaldri í sveitarfélaginu voru í upphafi árs í fyrra 192 þannig að undir listann skrifuðu tæplega þriðjungur þeirra. 

Tillaga var lögð fram á fundi sveitarstjórnarinnar um að boðað yrði til íbúakosningar en hún var felld. 

Lokað á íbúakosningu

Árný segir í bókuninni að hún hafi lagt sig fram við að skoða alla kosti vel en hún hafi í rauninni ekkert val. Hún hefði viljað að íbúum hefði gefist kostur á að greiða atkvæði milli R og Þ-H leiðar í bindandi atkvæðagreiðslu en lokað hafi verið á lýðræðislega íbúakosningu um leið og skipulagsvaldið hefði verið tekið af sveitarstjórninni. „Skipulagsvaldið í þessu máli er ekki okkar heldur formsatriði til að uppfylla.“ 

Vegagerðin og samgönguráðherra vilji að Þ-H leiðin verði farin. Þá hafi Vegagerðin sagt að aðrar leiðir yrðu ekki valmöguleikar fyrr en Þ-H leiðin væri fullreynd, aðrar leiðir mætti aðeins skoða ef hún yrði vegna kærumála dæmd ófær að lögum. Árný sagði því ekki annað í stöðunni en að leggja til að sú leið yrði auglýst í stjórnartíðindum. „Ég vil benda á alvarleika þess að skipulagsvaldið sé tekið af sveitarfélögum. Legg ég þá til að skoðað verði með lögfræðingum sveitarfélagsins hvort lögð verði fram stjórnsýslukæra þess efnis á hendur Vegagerðinni.“

Mynd:  / 
Árný Huld Haraldsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi í Reykhólahrepp

Undir þetta taka Jóhanna Ösk Einarsdóttir og Embla Dögg B. Jóhannsdóttir sem bókuðu á fundinum að sveitarfélaginu hefðu verið settar fjárhagslegar skorður við leiðarval. „[O]g lítum svo á að það hafi ekki raunverulegt val um leið, heldur sé það að samþykkja leið sem stjórnvöld leggja til. Þar með setjum við spurningarmerki við hvort skipulagsvald liggi í raun og veru hjá sveitarfélögunum.“ Þá harma þær framgöngu nærliggjandi sveitarfélaga sem hafi beitt sveitarfélagið yfirgangi og þrýstingi í málinu. 

Sveitarstjórnir eigi ekki að láta undan þrýstingi

Ingimar Ingimarsson oddviti lýsir vonbrigðum með niðurstöðuna í sinni bókun. Sveitarstjórnarfólk þurfi oft að taka erfiðar ákvaðarnir og þær eigi að taka eftir yfirferð og innsæi en ekki eftir þrýsting frá utanaðkomandi fólki og stofnunum. „Ljóst er að hótanir, kúgun og áburður Vegagerðarinnar, nágrannasveitarfélaga og fjórðungssambandssins hafa borið tilætlaðan árangur. Málið hefur setið botnfrosið í 17 ár og litlar líkur á að það breytist í bráð.“ Hann segir að í ljósi sögunnar hljóti öllum að vera ljóst að Teigskógarleið verði seint eða aldrei farin. „Þau umhverfisáhrif sem Teigskógarleiðin mun hafa eru gríðarleg og óafturkræf það dylst engum. Það eru því litlar líkur á því að sú leið verði nokkurn tímann að veruleika. Þetta vita fulltrúar Vegagerðarinnar, þetta veit ráðherra, samt skal haldið áfram og reynt.“