Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Töldu liðsmenn Prodigy smygla dópi til Íslands

Mynd:  / 

Töldu liðsmenn Prodigy smygla dópi til Íslands

04.03.2019 - 19:24

Höfundar

Keith Flint, söngvari bresku rafsveitarinnar The Prodigy, sem fannst látinn á heimili sínu skammt frá Lundúnum í morgun, svipti sig lífi um helgina. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Liam Howlett, forsprakka sveitarinnar, á Instagram. Í viðtali við RÚV árið 1997 lýsti Flint því hvernig íslensk tollayfirvöld grunuðu liðsmenn sveitarinnar stöðugt um að smygla eiturlyfjum til Íslands, þegar þeir komu hingað til lands til tónleikahalds.

Prodigy var stofnuð 1990 og varð fljótlega vinsælasta raftónlistarsveit heims. Þeirri stöðu hélt sveitin allan tíunda áratug síðustu aldar. Segja má að Flint hafi verið andlit sveitarinnar út á við, en auk þess að syngja mörg af þekktari lögum hennar vakti hann athygli fyrir skrautlegt líferni og líflega sviðsframkomu.

Prodigy hefur haldið fjölmarga tónleika hér á landi, síðast á Secret Solstice tónlistarhátíðinni fyrir tveimur árum. Í samtali við RÚV fyrir tónleika í Laugardalshöll árið 1997 sagðist Flint ákaflega hrifinn af landi og þjóð.

„Mér líkar við Ísland. Ég dáist að landslaginu. Nema vatnið, það er fýla af vatninu,“ sagði Flint. „Eins og prump,“ sagði Leeroy Thornhill, annar meðlimur sveitarinnar, í léttum dúr. „Já það er brennisteinn í því,“ bætti Flint við.

Hins vegar sögðu þeir félagar erfitt að eiga við íslensk tollayfirvöld.

„Við förum í gegnum helvíti við að komast til Íslands. Við förum þangað bara til að skemmta fólki. En þeir virðast leggja fæð á okkur,“ sagði Flint „Þeir halda að við komum með eiturlyf,“ bætti Thornhill við. „Þetta er svo fámennur staður og þeir halda að við komum með dóp. Ég er bara að gera það sem veitir mér ánægju og ég klúðra því ekki með dópi. Þeir virðast ekki skilja það,“ sagði Flint.

Breyttu landslaginu

Þorsteinn Hreggviðsson, útvarpsmaður og plötusnúður, hitaði upp fyrir sveitina í tvígang, auk þess að spila á tónlistarhátíðinni Uxa árið 1995, þar sem Prodigy kom einnig fram.

„Það er náttúrulega leiðinlegt þegar ungur maður í blóma lífsins fer. Sérstaklega þegar hann er jafnhæfileikaríkur og Keit Flint var,“ segir Þorsteinn.

„Þeir breyttu landslaginu í tónlist á sínum tíma. Og að fylgjast með ferlinu hjá þeim frá því þeir gefa út Charly sem verður svona klúbba- og „reifhit“, í það að verða bara stærsta band í heimi, það er ótrúlegt og gerist á mjög stuttum tíma. Og svo sér maður að þeir eru búnir að senda frá sér sjö breiðskífur, sex þeirra búnar að fara á toppinn í Bretlandi, þannig að þetta eru alvöru leikmenn.“

Aðalmaðurinn í Prodigy er Liam Howlett, sem er kannski svolítið á bakvið tjöldin, hvað þýðir þetta fyrir framtíð hljómsveitarinnar? Er hún búin?

„Það er ómögulegt að segja. Mér finnst það ólíklegt. En við verðum bara að sjá hvað gerist.“

Tengdar fréttir

Menningarefni

Keith Flint úr Prodigy látinn

Tónlist

„Þungt og kalt rapp“

Tónlist

Sólskin, skúrir, popp-rokk+rapp í Laugardal

Mynd með færslu
Popptónlist

Secret Solstice Schlager Special