Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Tókust á um þriðja orkupakkann

15.11.2018 - 09:30
Mynd: RÚV / RÚV
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, furðar sig á gagnrýni á þriðja orkupakkann því ákveðið hafi verið að innleiða orkupakkana fyrir fimmtán árum síðan. Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Alþingi hafi síðasta orðið.

Hér á landi hafa fyrsti og annar orkupakki Evrópusambandsins verið innleiddir. Vinnslu og dreifing raforku var aðskilin og samkeppnismarkaður skapaður um orkuna. Þriðji pakkinn fjallar um sölu á raforku milli landa og rétt sameiginlegrar orkustofnunar, ACER, til að úrskurða um deilumál vegna þessa.

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist í Morgunútvarpinu ekki vera búinn að taka endanlega afstöðu til málsins, hann vildi fá að kynna sér öll gögn og fá svör við mögulegum afleiðingum þess að hafna þriðja orkupakkanum. „Það gerir mig fyrirfram mjög tortrygginn ef það er eitthvað sem hugsanlega skerðir óskorað forræði okkar yfir því tvennu sem skapar sérstöðu okkar gagnvart öðrum Evrópulöndum; það er að segja fiskveiðarnar okkar, sjávarútvegurinn og síðan orkumálin.“

Ósammála um afleiðingar neitunar

Þorsteinn segir umræðuna farsakennda því ákveðið hafi verið að fella orkumálin undir innri markaðinn fyrir fimmtán árum. ACER sé ætlað að skera úr ágreiningi yfir landamæri og ekki reyni á það hér því Ísland sé ekki tengt raforkumarkaði í Evrópu. ACER hafi enga lögsögu hér nema Ísland taki sjálfstæða ákvörðun um það að leggja sæstreng. Ef þriðja orkupakkanum verður hafnað þá sé um leið verið að segja að Ísland sé á leið út af innri markaðinum. „Þá erum við bara að hefja fyrstu skrefin að því að ganga út úr Evrópska efnahagssvæðinu. Og það þarf þá bara að vera heiðarlegt í þeirri umræðu að segja: Við viljum ekki vera inni á Evrópska efnahagssvæðinu og við erum farin.“

Páll segir álitamál hvort neitun þýði einmitt þetta. Hann telur að skiptar skoðanir séu innan allra flokka um málið og erfitt að spá fyrir um endanlega útkomu málsins. „Það er nú bara þannig að það er Alþingi sem á síðasta orðið. Og það er auðvitað í höndum Alþingis að segja já eða nei. Þetta er ekki þannig að ríkisstjórnin per se eða embættismenn taki einhverjar ákvarðanir og stilli svo Alþingi upp fyrir framan það. Ef Alþingi vill segja nei þá segir Alþingi nei.“

ACER hafi ekki lögsögu hér

Þorsteinn segir rétt að hafa í huga að utanríkisráðuneytið sendi þrjú minnisblöð um afstöðuna í málinu 2014- 2015 til stjórnskipunar og eftirlitsnefndar og utanríkismálanefndar og engar efasemdir hafi verið viðraðar. 

„Nú er verið að reyna að hræra upp í þessu og ég segi með vísvitandi blekkingum verið að gera eitthvað annað og meira úr þessum þriðja orkupakka heldur en hann er, að reyna að halda því fram að hér felist einhvers konar framsal á orkuauðlindum þjóðarinnar sem er fjarri sanni og ekki hægt að finna nein lagaleg rök fyrir. Ég myndi kalla þetta dæmigerð lýðskrum í þessu máli.“ 

Þorsteinn segir að kryfja verði málið til mergjar í þinginu þannig að þingmenn geti fært rök fyrir máli sínu. Hann segir að orkupakkinn hafi engin raunveruleg áhrif umfram það sem hann hafi þegar haft hér. „Nema þá og því aðeins að við ákveðum að tengjast evrópskum orkumarkaði. Og bara til þess að halda því til haga, þau áhrif eru líka ekki stórkostleg og alls ekkert eitthvert auðlindaframsal eins og hér er reynt að teikna.“ 

Hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan. 

 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV