Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tókust á um launamun kynjanna hjá Kópavogsbæ

09.02.2018 - 14:23
Mynd með færslu
Pétur Hrafn Sigurðsson í pontu og Ármann Kr. Ólafsson lengst til hægri. Myndin er úr safni. Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Meiri- og minnihlutinn í bæjarstjórn Kópavogs deildu um það á fundi sínum í gær hvort munur væri á launum kynjanna hjá bænum. Bæjarfulltrúarnir lögðu fram sex bókanir á víxl þar sem þeir gerðu grein fyrir afstöðu sinni til málsins. Niðurstaðan virðist vera sú að launamunur sé vissulega fyrir hendi, en að hann sé ekki óútskýrður heldur skýrist af því að karlar vinni meiri yfirvinnu en konur.

Málið hófst með því að skýrslan „Launakönnun starfsmanna Kópavogsbæjar í nóvember 2016“ var lögð fram á bæjarstjórnarfundinum. Pétur Hrafn Sigurðsson, oddviti Samfylkingarinnar, lagði þá fram bókun þess efnis að þótt niðurstaða skýrslunnar væri að enginn kynbundinn launamunur væri milli kynjanna hjá bænum ef horft væri til dagvinnulauna fólks sem ynni sama starf á sama sviði, væri á sama aldri og með sama starfsaldur, þá ynnu karlarnir fleiri yfirvinnutíma en konurnar.

„Áhyggjuefni er að hlutfallslegur heildarlaunamunur kynja hefur aukist hjá Kópavogsbæ samkvæmt könnuninni. Í könnun sem gerð var árið 2013 voru heildarlaun (fullt starf) kvenna 86,3% af heildarlaunum karla, en lækkuðu niður í 83,4% árið 2016. Skýringar er ekki að finna í skýrslunni en svo virðist sem, einhverra hluta vegna, að karlar í störfum hjá Kópavogsbæ þurfi að vinna fleiri yfirvinnutíma en konur í sambærilegum störfum,“ segir í bókun Péturs Hrafns.

„Þarna er um misskilning hjá bæjarfulltrúanum að ræða“

Fulltrúar meirihlutans vildu ekki sætta sig við þessa túlkun Péturs og lögðu fram gagnbókun. „Þarna er um misskilning hjá bæjarfulltrúanum að ræða,“ segir í upphafi bókunarinnar, sem er lögð fram af bæjarstjóranum Ármanni Kr. Ólafssyni, Theodóru S. Þorsteinsdóttur, Karen Halldórsdóttur og Hjördísi Ýr Johnson.

Á milli kannana hafi í sveitarfélaginu fjölgað í störfum þar sem yfirvinna sé lítil, til dæmis í skólum og leikskólum. „Það leiðir til þess að meðaltölin breytast milli kannana án þess að yfirvinna karla hafi verið aukin,“ segir í bókuninni. Niðurstaða rannsókna Háskólans á Akureyri sé skýr – kynbundinn munur á heildarlaunum sé ekki marktækur og enginn þegar bornir séu saman einstaklingar í sambærilegum störfum.

„Við fögnum niðurstöðu rannsóknar Háskólans á Akureyri. Hér er um frábæran árangur að ræða þar sem ekki er lengur um kynbyndin launamun að ræða hjá Kópavogsbæ. Þetta er uppskera markvissrar vinnu. Innilegar þakkir til starfsmanna Kópavogsbæjar,“ segir í bókun meirihlutafulltrúanna.

Enn bókað

Pétur lét hins vegar ekki þar við sitja og bókaði eftirfarandi: „Meðaltal yfirvinnustunda alls starfsfólks er 13,32 tímar á mánuði en karlmenn vinna að meðaltali fleiri yfirvinnutíma en konur. Í skýrslunni kemur fram að þá vinna karlar 24,9 yfirvinnutíma að meðaltali og konur vinna 10,1.“

Bæjarstjórinn Ármann Kr. Ólafsson svaraði Pétri með þessari bókun: „Það er undirstrikað í skýrslunni að ef karl og kona vinna sama starf er enginn launamunur. Tölfræði sú sem bæjarfulltrúinn leggur hér fram er útskýrð í skýrslunni.“

Víst launamunur, segir Pétur

Og Pétur Hrafn lagði þá fram enn eina bókunina: „Það er rangt hjá bæjarstjóra að enginn launamunur sé á milli karla og kvenna sem vinna sama starf. Rétt er að enginn kynbundinn launamunur er á milli þeirra. Athygli bæjarstjóra er vakin á því að í flokknum stjórnendur 2 eru karlmenn með rúmlega 45 fasta yfirvinnutíma á meðan konur í sama flokki eru með 30 fasta yfirvinnutíma og laun karla eru því umtalsvert hærri í þeim flokki.“

Ármann bæjarstjóri lauk svo þessum bókanatennis með síðasta svarinu: „Undirritaður er eingöngu að vísa í niðurstöður Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri. Að teknu tilliti til þátta sem hafa áhrif á laun, s.s. aldur og menntun er ekki um kynbundinn launamun að ræða hjá Kópavogsbæ. Það er niðurstaða rannsóknarinnar. Umræða um annað er tilraun til að draga athyglina frá þeim árangri og þeirri staðreynd að Kópavogsvær er fyrsti opinberi aðilinn á Íslandi þar sem sá árangur næst.“

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV