Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Tökumenn fylgdu Jóhanni Eyfells í nærri áratug

02.05.2017 - 22:39
Mynd: RUV / RUV
Mynd um Jóhann Eyfells, íslenskan myndlistarmann á tíræðisaldri, var valin besta heimildarmyndin á kvikmyndahátíð í Texas um helgina. Framleiðslan hefur tekið tæpan áratug. Leikstjórinn segir verk Jóhanns einstaklega hrífandi.

Í myndinni, A Force in Nature, er Jóhanni Eyfells fylgt eftir en hann er 93 ára myndhöggvari og myndlistarmaður og býr einn á stórum búgarði í Texas. Hayden Yates leikstýrði myndinni en hún var frumsýnd á Hill Country kvikmyndahátíðinni um helgina. Kvikmyndagerðarmenn hafa fylgt honum í tæpan áratug og einnig ferðast hingað til lands í leit að því sem mótaði Jóhann sem listamann á yngri árum. 

Hayden segist ekki viss hvað það var sem kveikti áhuga hans. Jóhann sé mjög hrífandi en um leið flókinn. Hann veiti vissan glugga að sálinni í gegnum verk sín og hafi haft áhrif á mjög marga, þar á meðal Hayden sjálfan. Það hafi líklega orðið til þess að hann hafi byrjað, til að skilja Jóhann betur, en ekki komist langt því Jóhann sé mikil ráðgáta. 

Jóhann er virtur listamaður í Bandaríkjunum en einnig hér heima. Nokkrar höggmynda hans er að finna hér á landi, þeirra á meðal er Íslandsvarðan sem stendur við Sæbraut í Reykjavík. Kristín Eyfells, eiginkona hans, lést skömmu eftir aldamótin og þá fluttist hann á búgarð í Frederiksburg í Texas þar sem hann hefur búið síðan og landareignina prýða fjöldamörg verk hans. Og búgarðurinn er stór enda mörg verka Jóhanns engin smásmíði. Hayden segir að Jóhann sé einstakur listamaður og hann sé enn að burðast með grjót og stórar stálgjarðir í listsköpun sinni.

 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV