Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Tökumaður sparkaði í flóttafólk

09.09.2015 - 08:51
Mynd með færslu
 Mynd: Twitter/Stephan Richter - Skjáskot
Netmiðill tengdur Jobbik-flokknum, flokki róttækra þjóðernissinna í Ungverjalandi, hefur rekið einn kvikmyndatökumann sinn Petru Laszlo eftir að myndir birtust af henni bregða fæti fyrir flóttamenn og sparka í þá.

Laszlo var að taka myndir af flóttafólki á flótta undan lögreglu við bæinn Roszke skammt frá landamærum Serbíu þegar hún brá fæti fyrir flóttamann með barn í fanginu. Það náðist á myndband og síðar sást hún sparka í flóttamenn þar á meðal barn.

Vinnuveitandi hennar N1TV, sem vinnur að því að fegra ímynd Jobbik-flokksins, sendi frá sér tilkynningu þar sem sagði að framkoma Laszlo hefði verið ósæmandi og að hún hefði verið rekin. Jobbik-flokkurinn, sem er þriðji stærsti flokkur Ungverjalands, er andvígur fjölgun innflytjenda í landinu og eitt af slagorðum flokksins er Ungverjaland fyrir Ungverja.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV