Tökulið Game of Thrones sótti ekki um leyfi

24.01.2017 - 15:47
Mynd með færslu
 Mynd: hbo
Kvikmyndatökulið sem var við tökur á nýjustu þáttaröð Game of Thrones á Íslandi fyrir skemmstu, sótti ekki um leyfi fyrir tökunum til Umhverfisstofnunar. Slíkt leyfi þurfti vegna utanvegaaksturs í Dyrhólafjöru, eins og sést á mynd sem deilt var á samfélagsmiðlinum Instagram.
 

A photo posted by caroline oxley (@varulfur.berserk) on

Lista yfir veitt leyfi er að finna á vef Umhverfisstofnunar, en leyfi fyrir utanvegaakstur í fjörunni er þó hvergi að finna á listanum. Aðalbjörg Birna Guttormsdóttir, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun, segir í samtali við fréttastofu að sótt hafi verið um leyfi fyrir tökunum hjá Mýrdalshreppi og það veitt. Slíkt leyfi dugir þó ekki til því samkvæmt náttúruverndarlögum verður að sækja um leyfi til Umhverfisstofnunar til að aka vélknúnum ökutækjum utan vegar vegna kvikmyndagerðar.

Einnig hætta á olíumengun

Kvikmyndafyrirtækið Pegasus hafði umsjón með tökunum hér á landi í samvinnu við erlent tökulið þáttanna vinsælu.

„Við munum senda Pegasus bréf þar sem farið er yfir hvernig á að bera sig að, þetta er leyfisskyld framkvæmd. Jafnvel munum við boða þá á okkar fund og sveitarfélagið líka,“ segir Aðalbjörg Birna. Hún bendir á að þó þarna sé verið að keyra í sandi, sem margir líti svo á að muni jafna sig fljótt, þá spili fleira inn í.

„Við áhættumetum svona framkvæmdir og setjum skilyrði ef við teljum það við hæfi. Það eru önnur atriði en bara utanvegaakstur, það geta orðið mengunarslys og lekið olía. Þá er hægt að rekja það aftur, hverjir hafa verið á ferðinni og hvar,“ segir Aðalbjörg Birna.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - Youtube
Auglýsing KúKú Campers vakti athygli á síðasta ári. Þar var tekið fram að utanvegaakstur væri bannaður.

Aukin umsvif í kvikmyndaiðnaði kölluðu á ákvæðið

Á síðasta ári veitti Umhverfisstofnun í fyrsta skipti leyfi fyrir utanvegaakstri á grundvelli náttúruverndarlaganna. Þá var það skilyrði sett að í auglýsingunni, sem verið var að taka upp fyrir, yrði þess getið að utanvegaakstur á Íslandi væri bannaður. Engin trygging var þó fyrir því að slíkt yrði gert.

Umhverfisstofnun hefur þurft að fylgjast vel með kvikmyndatökum hér á landi að undanförnu og aukin umsvif í kvikmyndaiðnaði hér á landi átti sinn þátt í því að ákvæðið um utanvegaakstur var sett inn í nýju lögin.