Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tóku lag Auðar og Mezzoforte í spilun

Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Bent - Hljómskálinn

Tóku lag Auðar og Mezzoforte í spilun

20.02.2020 - 15:25

Höfundar

Hún veit hvað ég vil, eitt vinsælasta lag landsins, hefur verið tekið úr spilun á Rás 2. Lagið var samstarfsverkefni Auðar og Mezzoforte fyrir sjónvarpsþáttinn Hljómskálann og hefur farið með himinskautum á öldum ljósvakans. .

Guðmundur Kristinn Jónsson, betur þekktur sem Kiddi í Hjálmum og einn umsjónarmanna Hljómskálans, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu og segir þetta gert að beiðni Sony.  Hann segir þetta ekkert stórmál því Sony vilji bara að lagið fari réttar boðleiðir. 

Hann segir að það séu tónlistarmennirnir sem eigi upptökuna, „masterinn,“ eins og það heitir á fagmálinu, en ekki RÚV. „Og við leyfum þeim að gera það sem þeir vilja.  Við vissum ekki að Auður væri samningsbundinn Sony og þar komu menn af fjöllum þegar lagið leit dagsins ljós.“ Guðmundur segir þetta skiljanlegt ef menn eru búnir að gera samning og nú sé það á valdi Sony að setja lagið aftur inn og þá í samvinnu við Mezzoforte.   

Steinunn Kamilla, umboðsmaður Auðar, vildi ekki tjá sig við fréttastofu en Matthías Már Magnússon, útvarpsmaður á Rás 2, sagðist aldrei á sínum 20 ára ferli hafa upplifað að taka lag úr spilun. Hvað þá lag sem væri svona vinsælt.

Aðdáendur Hljómskálans þurfa þó engu að kvíða því næsta sunnudag verður boðið upp á samstarf rokkaranna í Ham og Emilíönu Torrini. 

Athugasemd: Talsmaður Sony hefur sagt að það sé misskilningur að fyrirtækið hafi viljað taka lagið úr spilun eins og lesa má hér. Fyrirsögninni hefur verið breytt í samræmi við það.