Tók upp vegna þess að henni brá við samræðunum

07.12.2018 - 08:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Stundin sviptir hulunni í dag af huldumanninum Marvin sem tók upp samtal sex þingmanna á Klaustri bar 20. nóvember. Marvin heitir réttu nafni Bára Halldórsdóttir, og segir hún í viðtali við Stundina að hún sé 42 ára gömul, hinsegin og öryrki.

„Mér bara brá svo þegar ég heyrði hvernig þingmennirnir töluðu,“ segir Bára við Stundina og hún hafi vart trúað skilningarvitum sínum. „Svo ég byrjaði bara að taka upp, án þess að hugsa það neitt lengra. En því meira sem ég hlustaði, því reiðari varð ég, því þarna voru saman komnir valdamiklir menn að spúa hatri yfir minnihlutahópa á almannavettvangi. Ég held að það hafi verið rétt að upplýsa almenning um það sem þarna fór fram og eftir á að hyggja er ég stolt af því.“

Bára var stödd á Klaustri bar fyrir tilviljun. Hún átti dauða stund áður en hún færi á æfingu með hópi skemmtikrafta sem kallar sig Rauða skáldahúsið. Fyrir æfinguna hafði hún mælt sér mót við erlenda vini sína sem voru á landinu, en eftir þann vinafund var dauð stund fram að æfingu. Eftir síðustu æfingu Rauða skáldahússins hafði hópurinn farið á Klaustur bar, svo Bára ákvað að fara þangað að fá sér einn kaffibolla fyrir æfingu. Fljótlega eftir að hún settist þar niður varð hún vör við andlit sem hún kannaðist við. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, gekk inn á staðinn ásamt fleiri þingmönnum. Hún segist hafa gefið hópnum lítinn gaum til að byrja með. Síðan hófu þeir að ræða saman með miklum kvenfyrirlitningartón. „Svo heyrði ég eitthvað enn grófara, ég man ekki nákvæmlega hvað, en það var eitthvað sem sló mig...svo ég ákvað bara að prófa aðeins að kveikja á upptökuforritinu í símanum mínum,“ segir Bára við Stundina.

Bára segir að sér hafi brugðið við að hlusta á þingmennina tala svona í almannarými. Hún hafi velt því fyrir sér hvort þetta væri eðlileg hegðun af hálfu þjóðkjörinna fulltrúa, og henni fannst hún ekki geta annað en haldið áfram að taka samtalið upp. Hún kveðst stolt af því að vera litla þúfan „sem velti þessu þunga hlassi og setti þessa atburðarás af stað.“ Hún hafi þó lítið annað gert en að koma henni af stað, samfélagið eigi allan heiðurinn af því sem á eftir hefur komið.

Mikið hefur verið rætt um hljóð sem heyrist á upptöku Báru þegar þingmennirnir tala um fyrrverandi þingmanninn Freyju Haraldsdóttur. Margir telja að einhver sexmenninganna hafi gefið frá sér selahljóð þegar nafn hennar bar á góma. Freyja greindi sjálf frá því í grein á Kjarnanum að Sigmundur Davíð hafi hringt í hana og útskýrt fyrir henni að hljóðið sem heyrðist væri að líkindum stóll sem hafi verið hreyfður til. Fréttamaður Stöðvar 2 sannreyndi þetta, en tókst ekki að framkalla sams konar hljóð og á upptökunni. Í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 sagði Sigmundur Davíð að líklega hafi þetta þá verið reiðhjól að bremsa fyrir utan barinn. Bára segist handviss um að hljóðið hafi komið innan frá. „Ég heyrði þetta hljóð og kipptist við. Það er alveg ljóst að þetta hljóð var framkallað innanhúss og það kom úr þeirra átt,“ segir hún við Stundina.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi