Tók mörg ár að byggja upp sjálfstraust

Mynd: RÚV / RÚV

Tók mörg ár að byggja upp sjálfstraust

09.07.2018 - 16:17
Það er vægast sagt nóg að gera hjá Sölku Sól um þessar mundir, hvort sem það er að leika Ronju ræningjadóttur á 17. júní, spila fyrir hestamenn á landsmóti eða undirbúa nýja plötu með Amabadama.

Salka er fædd í Reykjavík og ólst að hluta til upp í Vesturbænum. Þegar hún var 7 ára flutti fjölskyldan svo í Kópavog. Þar varð Salka fyrir miklu einelti sem litaði bæði hana sem einstakling sem og skólagöngu hennar. 

Salka hafði æft á hljóðfæri síðan hún var 4 ára, píanó, trompet, gítar og þverflautu svo eitthvað sé nefnt en hafði aldrei þorað að syngja. Það var ekki fyrr en á öðru ári í menntaskóla sem hún reið á vaðið og tók þátt í söngvakeppni innan skólans, vann og fór í Söngkeppni framhaldsskólanna. Hún var líka virk í leikfélagi skólans og lék meðal annars hlutverk í uppsetningu FB á Diskóið er dautt og Rent.

Þrátt fyrir þetta stefndi Salka ekkert endilega á það á þessum tímapunkti að vera leik- eða söngkona. „Ég hélt alltaf að ég myndi enda sem kennari eins og mamma.“ Leikurinn og söngurinn blundaði samt sem áður í henni en hún var ekki sannfærð um að hún gæti lagt það fyrir sig.

„Það spilaði held ég inn í að ég var með mjög brotið sjálfstraust og lítið sjálfsálit.“

Sjálfstraustið var ekki enn fyllilega komið þegar Salka tók þá ákvörðun að fara til London að læra tónlist og leiklist. „Ég fór til þess að rækta hljóðfæra- og leiklistaráhugann en ekki endileg til þess að fara í bransann.“ Að námi loknu var hugarfarið hins vegar breytt.

Þegar hún kom heim vissi hún að hana langaði að vinna við tónlist en var ekki viss um hvar hún ætti að byrja. Þá kynnist hún stelpum sem síðar stofnuðu Reykjavíkurdætur. „Ég féll algjörlega fyrir þessu, fannst það sjúklega nett að rappa,“ segir Salka og bætir við að félagsskapur stelpnanna hafi hjálpað ótrúlega mikið.

Í Reykjavíkurdætrum kynntist Salka Steinunni Jónsdóttur og þær tvær ásamt Magnúsi Jónssyni stofnuðu reggíhljómsveitina Amabadama. Hljómsveitin gaf út lagið Hossa hossa árið 2014, fékk samstundis plötusamning og varð ein vinsælasta hljómsveit landsins.

Allt í einu var Salka Sól orðin allt í öllu, hún var í Reykjavíkurdætrum, Amabadama, farin að hasla sér völl sjálf sem söngkona og líka að vinna á Rás 2. Þrátt fyrir að þessi tími hafi verið skemmtilegur tók hann líka á.

„Ég áttaði mig ekkert á því strax hvað þetta myndi hafa mikil áhrif á mig og mitt dags daglega líf.“

Síðar meir fór leikhúsið svo að kalla en Salka var beðin að semja tónlistina fyrir uppsetningu Vesturports á Hróa Hetti. Þá var ekki aftur snúið og í haust stígur hún á svið í Þjóðleikhúsinu sem Ronja ræningjadóttir.

„Það er eitthvað við það að taka hænuskref út fyrir kassann sem að ég dýrka.“

Auk þess sem Salka leikur í Ronju er ný plata á leiðinni hjá Amabadama og þá er Salka líka búin að setja saman band af sínum uppáhalds hljóðfæraleikurum sem hún ætlar að byrja að semja með í haust.

Salka Sól var mánudagsgestur í Núllinu en hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.