Salka er fædd í Reykjavík og ólst að hluta til upp í Vesturbænum. Þegar hún var 7 ára flutti fjölskyldan svo í Kópavog. Þar varð Salka fyrir miklu einelti sem litaði bæði hana sem einstakling sem og skólagöngu hennar.
Salka hafði æft á hljóðfæri síðan hún var 4 ára, píanó, trompet, gítar og þverflautu svo eitthvað sé nefnt en hafði aldrei þorað að syngja. Það var ekki fyrr en á öðru ári í menntaskóla sem hún reið á vaðið og tók þátt í söngvakeppni innan skólans, vann og fór í Söngkeppni framhaldsskólanna. Hún var líka virk í leikfélagi skólans og lék meðal annars hlutverk í uppsetningu FB á Diskóið er dautt og Rent.
Þrátt fyrir þetta stefndi Salka ekkert endilega á það á þessum tímapunkti að vera leik- eða söngkona. „Ég hélt alltaf að ég myndi enda sem kennari eins og mamma.“ Leikurinn og söngurinn blundaði samt sem áður í henni en hún var ekki sannfærð um að hún gæti lagt það fyrir sig.
„Það spilaði held ég inn í að ég var með mjög brotið sjálfstraust og lítið sjálfsálit.“
Sjálfstraustið var ekki enn fyllilega komið þegar Salka tók þá ákvörðun að fara til London að læra tónlist og leiklist. „Ég fór til þess að rækta hljóðfæra- og leiklistaráhugann en ekki endileg til þess að fara í bransann.“ Að námi loknu var hugarfarið hins vegar breytt.
Þegar hún kom heim vissi hún að hana langaði að vinna við tónlist en var ekki viss um hvar hún ætti að byrja. Þá kynnist hún stelpum sem síðar stofnuðu Reykjavíkurdætur. „Ég féll algjörlega fyrir þessu, fannst það sjúklega nett að rappa,“ segir Salka og bætir við að félagsskapur stelpnanna hafi hjálpað ótrúlega mikið.