Tófur særðu fjölda kinda á bæ í Fitjárdal

28.11.2017 - 16:51
Mynd með færslu
 Mynd: Helga Rós Níelsdóttir
Tófur réðust á kindahóp í Fitjárdal í Húnavatnssýslu og bitu sumar þeirra mjög illa. Aflífa þurfti þrjár kindur strax og hugsanlega þarf að lóga fleirum. Áður hefur orðið vart við dýrbít heima við bæi í Fitjárdal.

Bændur á Fremri-Fitjum voru með kindur á gjöf á túni nokkur hundruð metra frá fjárhúsunum. Þegar kindur fóru að koma heim að húsum, bitnar í framan, var farið að grennslast nánar fyrir um hverskyns var. Og þá kom í ljós að margar kindur voru með áverka, mismikla.

Mynd með færslu
 Mynd: Helga Rós Níelsdóttir

Sáu greinileg tófuspor á túninu

Fyrst töldu þau að hundarnir á bænum hefðu bitið féð en útilokuðu það fljótlega. „Og þá fórum við að fara um túnið og þá sáust alveg greinilega tófuspor og mikið af þeim. Hún hafði greinilega verið þarna nokkrum sinnum.“ Segir Helga Rós Níelsdóttir, á Fremri-Fitjum.

Þurftu að aflífa þrjár kindur þegar í stað

Hún segir 26 kindur bitnar eftir tófuna og sumar mjög illa. „Þetta er flestallt neðan í kjálka, eða í munnvikjum og framan á trýni. Bitið framan af snoppum, bitið úr vör, bitið mikið í kjálka.“ Þrjár kindur voru aflífaðar þegar í stað og Helga segir hugsanlegt að það þurfi að fella fleiri. Sumar séu bitnar þannig að þær geti illa étið.

Hefur gerst á fleiri bæjum

Og Helga fór á fund sveitarstjóra Húnaþings vestra í dag til að skýra frá þessu. Það verði að ráðast í aðgerðir gegn tófunni, því ótækt sé að dýrbítur leggist ítrekað á fé heima við bæi. „Þetta hefur verið að gerast á fleiri bæjum heldur en hjá okkur. Þannig að þetta er einhver breyting, sérstaklega á þessu ári. Bæði í vor vissi ég um atvik og svo er þetta að ske núna. Við hlökkum náttúrulega ekki til þess að fara svona inn í vorið,“ segir hún.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi