Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Töframaðurinn sem rokkar

Mynd:  / 

Töframaðurinn sem rokkar

10.02.2019 - 16:25

Höfundar

Ingó Geirdal töfrar ekki bara fram sargandi gítarhljóma með hljómsveitinni Dimmu. Frá unga aldri hefur hann líka stundað sjónhverfingar, hugarlestur og önnur töfrabrögð meðfram tónlistinni. Á sunnudag leggur hann undir sig Salinn í Kópavogi og heldur töfrasýningu sem rokkar.

Ingó hefur verið ein af driffjöðrunum í Dimmu, einni farsælustu þungarokkssveit landsins undanfarin ár. Hann segir hins vegar áhugan á töfrabrögðum hafa kviknað á undan tónlistaráhuganum.

„Ég var sex ára gamall þegar ég sá í sjónvarpinu hollenskan heimsmeistara í töfrabrögðum og þá kviknaði strax áhuginn. Það var eiginlega ekki fyrr en ég var orðinn þrettán ára sem ég hugsa með mér að það væri gaman að spila á gítar til að liðka töfrabrögðin. Síðan hefur þetta fylgst að.“ 

Ingó hefur skemmt bæði fullorðnum og börnum og segir mikinn mun á.„Það er talsverður munur því krakkarnir eru svo heiðarlegir og óbeislaðir að þeir láta þig strax vita ef þeir eru ekki ánægðir eða eitthvað er ekki eins og það á að vera, sem er það besta fyrir töframenn því þá geturðu ennþá unnið í atriðinu og gert það betra. En mér finnst bæði mjög skemmtilegt. Á þessum sýningum sem ég hef verið að gera í Salnum og er að fara að gera á sunnudag er ég með prógram sem höfðar til allra aldurshópa.“

Ingó segist hafa haft það fyrir reglu að fylgja hjartanu.

„Þetta er mín ástríða og ég trúi að besta efni Dimmu sé ekki ennþá komið út og sé ósamið og það er það sama með töfrabrögðin, ég trúi að ég eigi mínar bestu sýningar eftir. Það er þetta sem drífur mann áfram.“

Rætt var við Ingó í Menningunni. Horfa má á umfjöllunina hér að ofan.

Tengdar fréttir

Tónlist

Dimma fór norður og niður

Tónlist

María Rut - Megas og íslensk tunga