Töf á birtingu aflandsskýrslu hefði mátt nýta

31.01.2017 - 13:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigurður Ingólfsson, formaður starfshóps um fjármagnsflótta til aflandssvæða, segir að ef hópurinn hefði vitað að ekki stæði til að skila skýrslunni fyrr en á nýju ári, hefði sá tími geta nýst nefndinni. Skammur tími til verksins hafi orðið til þess að ekki hafi reynst hægt að fara í rannsóknir og reyna að komast til botns í misvísandi tölfræðigögnum. Þetta kom fram í viðtali við Sigurð í Kastljósi í gærkvöldi. Nýr fjármálaráherra, Benedikt Jóhannesson, verður gestur Kastljóss í kvöld.

Skýrsla starfshópsins ber þess merki að honum hafi verið skammtaður naumur tími til verksins. Eða frá júní á síðasta ári og fram í september. Sérstaklega þegar í ljós hefur komið að upplýsingar skortir í mörgum tilfellum. Því er hvatt til þess að frekari rannsóknir fari fram.

Sú staðreynd að skýrslunni hafi svo ekki verið skilað til alþingis eða hún birt fyrr en rúmum þremur mánuðum eftir að vinnu við hana lauk, hefði að mati formanns starfshópsins geta nýst við áframhaldandi vinnu, hefði starfshópurinn fengið að vita af því fyrirfram:

„Okkur fannst við hafa fengið mjög skamman tíma. Það kemur síðan í ljós eftirá að við hefðum kannski getað verið að vinna þetta betur og lengur fyrst að skýrslan átti ekki að koma út fyrr en á nýju ári. Við hefðum viljað fara dýpra í nokkra þætti og skilja betur hvernig þessar gagnavillur eru til komnar. Einfaldasta leiðin er að horfa til annarra landa og taka þau sér til fyrirmyndar í meira mæli.”

Peningaþvætti

Þótt mikil umræða hafi verið hérlendis um skattaskjól og undanskot frá skattgreiðslum, hefur lítil áhersla verið lögð á hina hlið málsins. Peningaþvætti. Það, þegar peningum sem aflað er með skattsvikum eða ólögmætum hætti, er komið í umferð. Peningaþvætti er alvarlegt lögbrot.

Tíu ára tafir

Þrátt fyrir áherslu íslenskra stjórnvalda á hlutverk Íslendinga í alþjóðafjármálalífinu, gríðarlegan útflutning á fjármagni til lágskattasvæða og skilgreindra skattaskjóla, var eftirlit með peningaþvætti hér á landi í algjöru lágmarki og var raunar svo illa sinnt að alþjóðlegar eftirlitsstofnanir settu stjórnvöldum afarkosti á fundi hér á landi árið 2015.

Þá komu hingað til lands æðstu yfirmenn samtakanna Financial Action Task force sem starfa í umboði OECD. Þeir höfðu þá í tæpan áratug krafist þess að stjórnvöld stæðu við loforð sín um eftirlit og varnir gegn peningaþvætti.

Samkvæmt frásögn embættismanna sem sátu fundinn voru fulltrúar samtakanna ómyrkir í máli þegar þeir tjáðu stjórnvöldum að þolinmæði þeirra væri endanlega á þrotum. Samtökin gætu ekki lengur ábyrgst Ísland sem öruggt land með tilliti til peningaþvættisvarna og það hefði alvarlegar afleiðingar fyrir orðspor landsins og sérstaklega íslenskar fjármálastofnanir.

Orðalagið sem brúnaþungir yfirmenn samtakanna notuðu að sögn var að Íslendingar yrðu að gera það upp við sig hvort þeir vildu vera í sama flokki og Suður-Súdan og Norður Kórea.

Eftir afarkosti Peningaþvættissamtakanna og OECD tóku stjórnvöld við sér. Í stað þess að einn maður sinnti öllu peningaþvættiseftirliti eru þeir nú þrír á Peningaþvættisskrifstofu Héraðssaksóknara. Það eftirlit þyrfti þó að vera mun meira að sögn formanns starfshópsins.

Enn ófullnægjandi

“Ég held að Íslendingar séu svolítið á eftir í því. Það er vel þekkt að Financial Action Task Force hefur verið að setja Ísland undir ákveðinn þrýsting til að bæta sína frammistöðu. Í peningaþvættisskrifstofunni á Íslandi eru nú þrír starfsmenn meðan þeir voru þrjátíu í Svíþjóð áður en þeir hertu á þessu og juku mannaflann væntanlega árið 2014. Á meðan að kannski verkefnin eru ekkert mikið einfaldari hérlendis. Þetta er svolítið hliðstætt því sem var með Fjármálaeftirlitið fyrir hrun. Þar vorum við með miklu færri starfsmenn og miklu minna umleikis heldur en Norðurlöndin en flækjustig fjármálakerfisins var ekkert minna. Það er náttúrulega ein af aðalniðurstöðum hópsins að við þurfum að bæta okkur í utanumhaldi og eftirliti með fjármagnsflutningum. Vegna þess hvernig verkefni okkar var rákumst við á ýmis vandamál þar. Bæði hafa fyrirtæki komist upp með að skila ekki gögnum, skila ófullkomnum gögnum og eftirlitsaðilum verið óhægt um vik að fylgja því eftir vegna þess að það voru engin viðurlög í gildi. Þessi rammi var allur mjög laus. Það hefði mátt veita þessum aðilum Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu og fleiri heimildir til að beita viðurlögum í miklu meira mæli”

200 milljarða skekkja?

Eins benti starfshópurinn á sérstakt misræmi í gögnum Seðlabankans um utanríkisviðskipti, mun á erlendum gjaldeyri sem er aflað og ráðstöfun hans sem lauslega áætlað er talið nema 200 milljörðum. Þó varlega sé lesið í þýðingu þessa - og vangaveltna um gagnavillur - er misræmi eins mikið og þetta jafnan - tengt fjármagnsflótta.

“Þetta misræmi er gríðarlega mikið hér á landi og miklu meira en í löndum sem við viljum bera okkur saman við. Og það finnst mér að ætti að vera alveg sjálfstætt rannsóknarefni, hverju það sætir.”

Þegar haft er í huga hversu gríðarlega mikið fé var flutt erlendis á árunum fyrir hrun, oft til þekktra aflandssvæða, framhjá skatti, löglega eða ólöglega, vekur athygli hversu mikið af fjármunum þaðan hefur komið hingað til lands aftur, á sérkjörum í gegnum svokallaða fjárfestingaleið Seðlabankans. Hún miðaði að því að laða erlent fjármagn til landsins, gegn því að bjóða krónur á hagstæðum kjörum.

Þannig gátu menn fengið allt að helmingi meira en annars hefði verið fyrir gjaldeyrinn sinn. Starfshópurinn vekur athygli á þessu í skýrslu sinni en bendir það til þess að aftur sé verið að umbuna þeim sem komu sér undan sköttum hér á landi fyrir hrun, á kostnað hinna sem ekki gerðu það? Nú af Seðlabankanum?

“Spurning hvað eftirlitsaðilar eiga að gera annað en að fara að þeim lögum og reglum sem eru settar. Og ef að menn fluttu þessa peninga löglega úr landi og komu með þá löglega til landsins og ef það felst í því óréttlæti og ég get alveg skilið það sjónarmið, að þá verður að breyta lögunum.Skattayfirvöld benda á það að þeir hefðu viljað meira og nánara samstarf við Seðlabankann í tenglsum við efirlit með fjármagnsflutningum milli landa.”
 

 

helgis's picture
Helgi Seljan
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi