Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Todmobile sameinar Yes og Genesis í London

Mynd: Todmobile / Facebook

Todmobile sameinar Yes og Genesis í London

26.10.2015 - 20:23

Höfundar

Til stendur að hljómsveitin Todmobile leiði saman helstu merkisbera prog-rokksins úr hljómsveitunum Yes og Genesis ásamt 70 manna hópi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og kórs í Royal Albert Hall í London á næsta ári.

Þetta kemur í framhaldi af samstarfi og tónleikahaldi Todmobile með Jon Anderson söngvara Yes og Steve Hackett gítarleikara Genesis undanfarni misseri.

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, leiðtogi Todmobile og nú tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar skýrði frá þessu í Helgarútgáfunni á Rás 2 á sunnudaginn. Þorvaldur sagði að hópurinn myndi flytja verk Yes og Genesis á tónleikunum sem hann vonaðist til að yrðu í árslok 2016.

Tónlistarsköpun Menningarfélagsins er í útrás víða. Fyrir utan samstarfið við Yes og Genesis nefndi Þorvaldur líka samstarf um tónlistarflutning og upptökur Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands (SinfoniaNord) fyrir Hollywoodmyndir og að bandaríska sjónvarpsstöðin VHS1 hefði nýlega keypt til sýninga Hörpu-tónleika Todmobile og Jons Anderson frá 2013.

Þorvaldur Bjarni kemur svo um næstu helgi með aðra stórtónleika í Hörpu. Þá gengur Sinfóníuhljómsveit Norðurlands inn í heim þungarokksveitarinnar DIMMU og ljáir honum nýja vídd. Julian Kershaw sem er heimsþekktur útsetjari frá Englandi mun taka þátt í verkefninu með Dimmu. Hann hefur nýlega unnið útsetningar fyrir Sir Paul McCartney, Richard Ashcroft og Elvis Costello. Tónleikarnir eru laugardaginn 31. október í Eldborg.