Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Tjónið í Laugardal um 20 milljónir

26.09.2012 - 14:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Tjónið af völdum sinubrunans í Laugardal í Ísafjarðardjúpi er metið á yfir tuttugu milljónir króna. Sveitastjóri Súðavíkurhrepps segir að innanríkisráðuneytið hafi sýnt vilja til að taka þátt í kostnaðinum en stór hluti tjónsins falli á hreppinn.

Frá þessu er greint á vefsíðu BB.  Ómar Már Jónsson, sveitastjóra Súðavíkurhrepps, segir í samtali við fréttastofu að 20 milljónir séu stór hluti af heildartekjum Súðavíkurhrepps. Heildarskatttekjur hans á síðasta ári hafi verið um sjötíu milljónir og því sé þetta nálægt þrjátíu prósent af þeirri upphæð.

Á vef bb.is kemur fram að talið sé að eldurinn hafi kviknað út frá einnota grilli og segir sveitastjórinn að þetta sé ábyggilega dýrasti hamborgari Íslandssögunnar. Hann voni að hinir óábyrgu grillarar hafi notið hans. Lögreglan á Vestfjörðum rannsakar nú upptök eldsins og hverjir séu mögulegir sökudólgar í málinu, segir í frétt bb.is.