Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tjón í ofsaveðri á Borgarfirði eystra

10.01.2019 - 15:44
Mynd með færslu
 Mynd:
Talsvert tjón varð á Borgarfirði eystra í óveðrinu sem gekk yfir landið í nótt. Mjög byljótt verður jafnan á Borgarfirði í vestan roki og er talið að þessar skemmdir hafi orðið á tveimur klukkutímum.

Klæðning á veginum við brúna yfir Fjarðarðará, austan þorpsins, flettist af á um þrjátíu metra kafla. Björn Aðalsteinsson, íbúi á Borgarfirði, segir aldrei vita til þess að slíkt hafi gerst áður á Borgarfirði.

Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd: Björn Aðalsteinsson

Þá fauk torfklæðning í heilu lagi af þaki Lindarbakka, gömlu torfhúsi í þorpinu. Húsið var mannlaust, en eigandi Lindarbakka dvelst þar að jafnaði stóran hluta ársins. Skorsteinninn á húsinu brotnaði og Björn segir að í fyrstu hafi menn óttast um skemmdir inni í húsinu en það hafi sloppið til. Líklega þarf að skipta um þak á húsinu.

Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd: Björn Aðalsteinsson

Vinnubúðir Héraðsverks, vegavinnuverktaka á Borgarfirði, hreyfðust úr stað og varð að binda þær fastar við vinnuvélar. Járnplötur losnuðu af tveimur húsþökum, girðing umhverfis Bakkagerðiskirkju brotnaði og sáluhliðið að kirkjugarðinum skemmdist. Þá urðu minniháttar skemmdir hér og þar í þorpinu.

Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd: Björn Aðalsteinsson

Björn segir að mest hafi gengið á um og fram yfir miðnætti. Þá hafi gríðarlegir byljir gengið yfir og trúlega hafi allar þessar skemmdir orðið á þeim tíma. Svona veður kalla Borgfirðingar Dyrfjallaveður, en í vestan roki koma oft mjög sterkir vindstrengir niður fjallshlíðarnar og skella á byggðinni.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV