Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tjáningarfrelsi sé ekki skert án ríkra ástæðna

07.11.2018 - 09:59
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Davíð Þór Björgvinsson, landsréttardómari og rannsóknarprófessor við Háskóla Íslands, segir að það þurfi að standa sérstakan vörð um tjáningarfrelsið. Háværar kröfur séu í samfélaginu um að þagga niður í fólki með óæskilegar skoðanir. 

„Þetta er sett þannig fram að það er eins og það sé sjálfsagður hlutur að ganga með þessum hætti á tjáningarfrelsið. Ég óttast þessa umræðu. Ég hef viljað halda mig við það að við göngum út frá því að við höfum tjáningarfrelsi, við skerðum það ekki nema að það séu ríkar ástæður til þess. Það er auðvitað matsatriði hvenær þær ríku aðstæður eru fyrir hendi,“ segir Davíð Þór sem var gestur Morgunútvarpsins á Rás2 í morgun.

„Mér finnst vera háværari kröfur í samfélaginu að það sé verið að beita refsingum eða einhverju til þess að þagga niður í fólki sem að okkur finnst hafa vafasamar skoðanir, við skulum orða það þannig,“ segir Davíð Þór jafnframt.

Davíð segir að Íslendingar lifi í bómull, vegna þess að umræða um hatursorðræðu verði til í öðru umhverfi, þar sem er spenna í samfélögum vegna margra ólíkra þjóðarbrota. Þá hafi staða fólks áhrif. „Víða í Evrópu er þetta vandamál að það eru stjórnmálaflokkar eða samtök sem njóta fylgi sem eru að hvetja til mismununar,“ bætir Davíð við.

Mannréttindasáttmálinn telji að umræða sem þessi sé ekki vernduð. „Vegna þess að hún miðar að því að eyða réttindum samkvæmt sáttmálanum. Þess vegna hefur mörgum svona málum verið vísað frá og sagt. Hér er um að ræða hatursorðræðu að því tagi að hún nýtur ekki einu sinni verndar tjáningarfrelsisins vegna þess að orðræðan sjálf hefur það að markmiði að beita annað fólk ofbeldi eða mismunun,“ segir Davíð Þór.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV