Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Tjaldsvæðið í Laugardal opið allt árið

29.08.2016 - 13:42
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Tjaldsvæðið í Laugardal verður opið í vetur. Aðsókn á tjaldsvæðið hefur aukist mikið síðasta árið en dæmi eru um að fólk sem er á milli húsnæðis dvelji á svæðinu í lengri tíma.

Opið í vetur vegna mikillar eftirspurnar
Hingað til hefur tjaldsvæðið í Laugardal verið opið frá 1. maí til 30. september en í haust verður svæðinu ekki lokað. Sigríður Ólafsdóttir rekstrarstjóri tjaldsvæðisins segir að ákveðið hafi verið að hafa tjaldsvæðið opið í vetur vegna mikillar eftirspurnar. Síðasta vetur hafi nokkrir húsbílar verið lagðir fyrir utan farfuglaheimilið sem er opið allt árið um kring en nú hafi verið ákveðið að hafa allt svæðið opið og bjóða upp á þjónustu og eftirlit í vetur. „Við höfum ekki bannað fólki að tjalda að vetri til áður, en þetta er í fyrsta sinn sem það verður opinberlega opið," segir Sigríður.

Mánaðargjald á tjaldsvæðinu
Hún segir mögulegt að greiða fyrir pláss á svæðinu í mánuð í senn og segir um 4-6 stóra húsbíla nýta sér það. Verð fyrir dvöl á tjaldsvæðinu í vetur hefur ekki verið endanlega ákveðið en Sigríður býst við að það muni kosta um 40-45 þúsund.

„Íslendingar á stærri bílum sem eru á milli húsa.“
Sigríður segir bæði íslenska og útlenda ferðamenn dvelja á tjaldsvæðinu. „Þetta er alls konar fólk. Bæði útlendingarnir sem eru á camper vögnunum sínum, svo eru líka Íslendingar á stærri bílum sem eru á milli húsa," segir Sigríður.
Hún segir nóg að gera og þó að nokkrir dvelji á svæðinu í lengri tíma sé almennt mikið rennsli á ferðamönnum.

Hrefna Rós Matthíasdóttir
Fréttastofa RÚV