Tjaldsvæðið: „Allt er betra en ískassinn“

Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir / Arnhildur Hálfdánardóttir
Það er sjö stiga frost og allt gaddfreðið á tjaldstæðinu í Laugardal. Inni í húsbílum og hjólhýsum leitast fólk við að halda á sér hita, hitinn er fyrir öllu. Frá og með deginum í dag býðst heimilislausum Reykvíkingum að leigja herbergi í Víðinesi. Það hugnast þó fáum íbúum á tjaldsvæðinu.

Veit bara um einn sem vill á Víðines 

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Gylfi Ægisson, tónlistar- og myndlistarmaður, kyndir með olíu. Það er þó ekki hlýrra en svo í bílnum, langferðabílnum Moby Dick, að hlutir frjósa fastir við rúðurnar.

Gylfi sýnir fréttamanni svæðið og segir frá vini sínum, Garðari, sem er veikur. 

„Ég næ ekki í hann, hann er bara veikur af kuldanum sko. Hann fékk sýkingu á Landspítalanum eftir að hann lenti í slysi og hann tapaði húsinu og öllu.“ 

Gylfi segir að Garðar sé á biðlista eftir félagslegu húsnæði í Kópavogi, þeir hafi nýlega farið á fund bæjarstjórans, sem hafi sagt að hann væri ofarlega á lista en hundurinn hans, sem Garðar hefur þjálfað til að hjálpa sér við hitt og þetta, fær ekki inni, að sögn Gylfa, því hann er ekki þjálfaður af Blindrafélaginu. Þetta finnst honum fáránlegt og til skammar. Gylfi segir að það búi um 20 manns á tjaldstæðinu en hann veit bara um einn sem vill á Víðines. Hann segir neyslu vímuefna ekki vandamál á tjaldsvæðinu. 

Hlýða má á umfjöllunina í heild í spilaranum hér fyrir ofan.

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Fyrst um sinn svaf Garðar í þessu tjaldi og þurfti þá annað hvort höfuðið eða fæturnir að vera úti. Síðar fjárfesti hann í húsbíl.

Fjórða árið í húsbílnum

Bergþóra Pálsdóttir hefur engan áhuga á því að flytja upp í sveit og segir engan hafa boðið sér það.

„Ég er betur stödd hér,“ segir hún. Þjónustan í kring skipti máli og bensínsparnaður. Hún er öryrki og er á biðlista eftir félagslegu húsnæði á Akureyri. „Ég var númer 44 síðast þegar ég vissi, ég vona að það fari nú eitthvað að ganga en þetta er fjórða árið sem ég bý í húsbílnum.“ 

Mynd með færslu
Mynd úr safni.  Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Tjaldsvæðið í Laugardal.

Létu hann hafa tíu þúsund kall svo hann gæti sofið

Í gærnótt varð allt brjálað að sögn Gylfa, það sló út eftir að félagi hans hafði leyft aðkomumanni að komast í rafmagn. Sá var gaslaus og Gylfi og vinur hans létu hann hafa fimm þúsund kall hvor, svo hann gæti keypt sér gas og sofið. Gylfi segir þetta ótækt, vill að yfirvöld ræði við yfirstjórnina á tjaldsvæðinu. 

„Nú er búið að samþykkja það, var mér sagt að það ætti að taka þetta allt í gegn en það á ekki að byrja á því fyrir jól. Það er hellingur af fólki úti sem þarf að komast á tjaldstæðið en það kemst ekki af því það má það ekki, það er ekkert rafmagn eða neitt.“

Hann vill að fleiri verði hleypt að, nóg sé plássið. 

„Á meðan fólk er á götunni og að drepast úr kulda." 

Allt betra en ískassinn

Við Gylfi förum inn á kaffistofu farfuglaheimilisins við tjaldstæðið, setjumst þar og spjöllum. Þá hringir, Garðar, vinur hans, sá sem er veikur og hann hafði ekki náð í. Garðar lætur hann vita að hann hafi fengið inni hjá vini sínum. Gylfi spyr hann hvort hann myndi þiggja að fara í Víðines, fái hundurinn að koma með, og Garðar segir það koma til greina, allt sé betra en ískassinn, bíllinn hans það er að segja. 

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Margir íbúar eiga það sameiginlegt að eiga dýr. Þegar við komum aftur að bílnum hans Gylfa hafði kötturinn Lilla lagt undir sig bílstjórasætið. Til viðbótar er hann með tvo skógarketti.

Niðurlæging

Svanur Elíasson, félagi Gylfa kemur og sest hjá okkur. Hann missti leiguhúsnæði sem hann var í. Honum finnst tilboðið um leiguherbergi í Víðinesi niðurlægjandi. Hvers vegna ættum við að vilja vera þar sem hælisleitendur vildu ekki vera? Spyr hann. 

„Þetta er ekki neyðarúrræði, við erum nú þegar í neyðarúrræði með því að vera í bílunum okkar hérna. Við þurfum varanlegt húsnæði, að það sé komið fram við okkur af virðingu, eins og menn.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Gylfi og Svanur.

Fékk herbergi í Hveragerði

Á leiðinni aftur á tjaldstæðið sýnir Gylfi okkur Svani örin á framhandleggjunum,  frá því hann var á sjó í denn.

„Svona færði maður börnunum brauð og þjóðinni auð í mörg, mörg ár. Svo fáum við þetta í staðinn.“ 

Gylfi sér nú fram á bjartari tíma, er kominn með herbergi í Hveragerði, en hann hyggst halda áfram að styðja félaga sína á tjaldstæðinu. 

Hærri leiga en á tjaldsvæðinu

Í sumar samþykkti borgarstjórn að gera sérstakt átak um bráðabirgðahúsnæði til að bregðast við vanda heimilislausra. Ekki var minnst sérstaklega á Víðines í því samhengi en nú hefur borgin boðið heimilislausum að leigja 14 herbergi í Víðinesi fyrir 50 þúsund krónur á mánuði, aðeins hærri upphæð en þarf að greiða fyrir að dvelja á tjaldstæðinu. Þetta er hugsað sem algert neyðarúrræði, í þrjá mánuði til að byrja með. „Hugsanlega gætum við framlengt þetta í sex mánuði, en þetta er alger neyðarlausn,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs. Reykjavíkurborg sé með allar klær úti, búin að kaupa og úthluta á annað hundrað íbúðum til fólks í erfiðri stöðu í haust.

Mynd með færslu
Frá Víðinesi. Mynd: Skjáskot - Mynd
Víðines.

Flestir úr öðrum sveitarfélögum

Könnun velferðarráðs leiddi í ljós að flestir íbúar á tjaldsvæðinu eru úr öðrum sveitarfélögum og að fáum Reykvíkingum hugnast að flytja í Víðines. Margir eiga svo dýr og vilja ekki skilja þau við sig. Regína segir þetta hafa verið rætt og ákveðið að bjóða fólki að taka dýrin með í Víðines svo framarlega sem þau angri ekki aðra. 

Í júní voru að minnsta kosti 349 einstaklingar heimilislausir eða utangarðs í Reykjavík. Tvöfalt fleiri en þegar hópurinn var síðast kortlagður árið 2012. Þetta kemur fram í rannsókn Velferðarsviðs frá í haust. Rannsóknin gefur ekki tæmandi upplýsingar um fjölda og hagi utangarðsfólks og mögulegt er því að fleiri tilheyri þessum hópi. Upplýsinga um hópinn var aflað frá starfsfólki þjónustumiðstöðva borgarinnar, Rauða krossins, Samhjálpar, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Fangelsismálastofnunar og SÁÁ. 

Fimmtungur finnur ekki húsnæði

Aðstæður þeirra sem tilheyra hópi heimilislausra eru mjög misjafnar. Af þessum 349 einstaklingum töldust 153 búa við ótryggar aðstæður, hafast við í gistiskýli eða á götunni, 97 voru að ljúka stofnanavist og 58 voru skráðir í langtímabúsetuúrræði, þeir teljast þá utangarðs hátt vegna annarra þátta en heimlisleysis. Í þessum hópi eru aðallega Íslendingar en um 11% eru af erlendum uppruna. Karlar eru í meirihluta, um 68% hópsins en hlutfallslega fleiri konur en karlar voru sagðar búa á götunni, í gistiskýli eða við ótryggar aðstæður. Flestir í hópnum voru sagðir neyta áfengis eða vímuefna að staðaldri eða um 62% og var áfengisvandi eða misnotkun vímuefna talin helsta orsök þess að fólkið var utangarðs eða heimilislaust. Næst á eftir komu geðræn vandamál. Fimmtungur glímdi einfaldlega við húsnæðisskort. 

Ekki fyrir skjólstæðinga Gistiskýlisins

Þór Gíslason, forstöðumaður Gistiskýlisins við Lindargötu og yfirmaður vettvangs- og ráðgjafarteymis vegna málefna utangarðsfólks segist mjög ánægður með að kominn sé nýr valkostur fyrir heimilislaust fólk. Hann segir Víðines þó nýtast öðrum hópi en alla jafna leitar í skýlið, fólki sem er ekki í neyslu og glímir ekki við geðræna erfiðleika. 

Deila kannski húsnæðinu með starfsmönnum verktakafyrirtækis

Regína segir að úrræðið sé fyrst og fremst hugsað fyrir Reykvíkinga sem eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði en það komi líka til greina að bjóða íbúum annarra sveitarfélaga sem eru heimilislausir og á biðlista að búa í Víðinesi. „Það gerum við þá í samráði við hin sveitarfélögin.“ Hún segir að ekki verði gerð krafa um að fólk sé ekki í neyslu eða horft til þess hvort fólk eigi bíl. 

„Við erum með um 80 úrræði í Reykjavík sem eru ætluð fyrir fólk í virkri neyslu þannig að við erum frekar að horfa á annan hóp.“ 

Hugsanlegt er að í Víðinesi verði líka starfsmenn verktakafyrirtækis.

„Þeir hafa áhuga á húsnæðinu en ætla að bíða og sjá hvernig þetta gengur hjá okkur.“

Hugsanlega eiga þessir tveir hópar því eftir að deila húsnæðinu.

„Það er ekki óskastaða að vera með svona stóran hóp á einum stað.“

 En verður einhver þjónusta í boði, Regína segir það óljóst. 

„VIð erum með umsjónarmann, sem verður á svæðinu, svo skoðum við málefni hvers og eins, það er fólk sem fer í Víðines sem hefur bíla til umráða en við munum bara skoða þetta hjá hverjum og einum, bjóða viðkomandi ráðgjöf hjá okkar ráðgjöfum og gera kröfu um að þeir sem eru annars staðar frá séu í virku samráði við sitt sveitarfélag.“

En hvað um þá sem velja að dvelja áfram á tjaldsvæðinu?

„ Það var farið í rafmagnsmálin á föstudaginn, sett bakvakt líka ef eitthvað myndi gerast í framhaldinu. Það þarf stærra inntak og það er í skoðun. Tjaldsvæðið er ekki beint undirbúið fyrir að taka á móti svona mörgum húsbílum sem þurfa svona mikið rafmagn yfir vetrartímann. Það er klárlega í skoðun hjá okkur.“ 

Dagur vill að aðrir geri betur

Borgarstjóri kallaði eftir því á Facebook í lok nóvember að önnur sveitarfélög gerðu betur. Reykjavíkurborg hafi unnið að því að auka framboð félagslegs húsnæðis en mörg önnur sveitarfélög séu með allt of fáar íbúðir og engar áætlanir um að fjölga þeim, fyrir sé Reykjavík með lang hæst hlutfall félagslegra íbúða. Og Dagur spurði hvort ný ríkisstjórn þyrfti að leiða skyldu sveitarfélaga til að fjölga þessum íbúðum í lög, þannig að munurinn á milli Reykjavíkur og annarra haldi ekki bara áfram að aukast.

Tillaga Kjartans aldrei afgreidd

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi, Sjálfstæðisflokks, lagði það fyrst til árið 2015 að heimilislausum yrði boðið að flytja í Víðines og aftur í ár. Tillaga hans hefur aldrei verið samþykkt, afgreiðslu hennar alltaf frestað. Svo tilkynnti Dagur B. Eggertsson það á Facebook í lok nóvember að í Víðinesi yrði neyðarhúsnæði fyrir heimilislausa. Kjartan gleðst yfir ákvörðun borgarinnar, telur rangt að láta gott húsnæði í eigu borgarinnar standa autt. Hann telur að úrræðið gæti hentað fólki í neyslu sérstaklega vel, það geti verið gott fyrir það að komast úr miðborginni. Annar borgarfullrúi Sjálfstæðisflokks, Marta Guðjónsdóttir, lagði nýlega til að leyfa heimilislausum að gista í Tjarnarsal Ráðhússins, en sú tillaga var felld.  

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi