Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tjaldbúðir fyrir börn reistar í Texas

20.06.2018 - 18:14
This undated photo provided by the U.S. Department of Health and Human Services' Administration for Children and Families shows beds at the shelter used to house unaccompanied foreign children in Tornillo, Texas. (HHS' Administration for
 Mynd: AP - U.S. Department of Health and Hu
Heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur tekið í notkun þrennar flóttamannabúðir í suðurhluta Texas-ríkis sem ætlað er að hýsa börn á „viðkvæmum aldri.“ Áætlað er að fjórðu búðirnar, í Houston, verði teknar í notkun á næstu misserum. Borgaryfirvöld hafa þó mótmælt ákvörðuninni.

Fulltrúi ráðuneytisins segir börn á „viðkvæmum aldri,“ skilgreind sem börn undir þrettán ára aldri. Landamæraeftirlitið hefur hins vegar yfirleitt notað hugtakið yfir börn yngri en fimm ára, samkvæmt úttekt Associated Press. Á blaðamannafundi í gærkvöldi sögðust fulltrúar bæði ráðuneytisins og lögreglu ekki vita hversu mörg barnanna væru yngri en fimm ára, yngri en tveggja ára, eða ómálga. 

Flest barnanna eru vistuð í tjaldbúðum, en yfirvöld hafa einnig komið upp svefnaðstöðu í yfirgefnum vöruhúsum. Sumum yngri barnanna hefur þó verið komið fyrir hjá fósturfjölskyldum. Michelle Brane, framkvæmdastjóri hjá réttindasamtökunum Women's Refuge Commission, sem heimsótt hefur búðirnar, segir þær ekki viðeigandi fyrir ung börn. „Við rekum ekki munaðarleysingjahæli lengur, velferðarkerfið hefur áttað sig á því að slíkar stofnanir eru óviðunandi staðir fyrir lítil börn.“

Reiði og sorg á samfélagsmiðlum

Í síðustu viku greindi CNN frá því að landamæraverðir í Texas hefðu tekið brjóstmylking frá móður sinni. „Konurnar gátu ekki haldið aftur af grátinum og við þurftum að taka regluleg hlé til að geta lokið viðtölunum,“ sagði Natalia Cornelio, lögfræðingur konunnar og annarra innflytjenda í fangabúðunum. 

Fjölmargar færslur hafa gengið manna á milli á samfélagsmiðlum, þar sem greint er frá líðan og aðbúnaði ungra barna sem hafa verið tekin frá foreldrum sínum. Barnalæknir í Denver í Colorado, Tara Neubrand, deildi á Facebook frásögn af þremur smábörnum sem hún hefur annast á síðustu vikum. Öll börnin voru tekin frá foreldrum sínum við landamærin og eru nú í umsjá fósturforeldra. 

Neubrand segist strax hafa séð áhrif aðskilnaðarins á börnin. Ekkert þeirra hafi sýnt leikföngum eða nýjum kringumstæðum nokkurn áhuga, og öll hafi þau neitað að sleppa taki af fósturforeldri sínu. Ein fósturmóðirin hafi ekki getað baðað fósturbarn sitt almennilega vegna þess að litla stúlkan neitaði að sleppa hendi af henni nógu lengi til að hún gæti sett hana í baðið. 

„Hann grætur á hverjum degi og kallar eftir pabba sínum, og ég veit ekki einu sinni hvar pabbi hans er,“ sagði ein fósturmóðirin með tárin í augunum, að sögn Neubrand í samtali við fréttastofu Buzzfeed. „Allt eru þetta vanar fósturfjölskyldur, sem hafa árum saman hugsað um börn sem eiga áföll að baki. En í þessum tilvikum eru engin samskipti, engir félagsráðgjafar og fósturfjölskyldurnar vita ekkert um stöðu foreldranna. Og þetta eru þau „heppnu,“ þau sem komust að í fóstri.“

Manny Fernandez, ritstjóri New York Times í Houston, deildi einnig mynd á Twitter af ársgömlu barni sem vistað er í búðum fyrir börn á „viðkvæmum aldri“ í Brownsville í Texas. 

Aðskilnaður frá foreldrum veldur djúpstæðum skaða

Sérfræðingar á sviði barnaverndar segja aðbúnað barnanna ekki vera aðalvandamálið, öllu heldur aðskilnaðinn frá foreldrum þeirra og fjölskyldum. Ótti þeirra setji af stað keðjuverkun streituhormóna sem raski heilastarfsemi, skapi mikinn kvíða, geri þau viðkvæmari fyrir bæði andlegum og líkamlegum veikindum, og eyðileggi getu þeirra til að stjórna tilfinningum sínum og einbeita sér í leik og starfi. 

„Það er líffræðileg staðreynd að börn þroskast og dafna best undir umönnun foreldris. Þegar þau tengsl eru rofin með langvinnum og óvæntum aðskilnaði, þar sem algjör óvissa ríkir um hvort eða hvenær barnið fær að hitta foreldrið aftur, hefur það djúpstæð tilfinningaleg og líkamleg áhrif,“ segir Alicia Lieberman, forstjóri áfallateymis barna og unglinga við Háskólann í Kaliforníu. 

Donald Trump hyggst gera „eitthvað“

Alþjóðasamtök, þjóðarleiðtogar og aðrir áhrifavaldar hafa fordæmt aðgerðirnar, meðal annars forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna og forstjórar Google, Facebook og Microsoft. „Börn hafa rétt á því að leika sér, læra og dafna í friði og ró. Ógæfa fylgi þeim sem hindrar einlæga von þeirra og bjartsýni!“ skrifaði Frans páfi í færslu á Twitter í síðustu viku. 

Þrátt fyrir hörð viðbrögð alþjóðasamfélagsins hafa viðbrögð ríkistjórnarinnar verið blönduð. Fyrrverandi kosningastjóri Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, Corey Lewandowski, var harðlega gagnrýndur fyrir að gera lítið úr þjáningum tíu ára stúlku með Downs-heilkenni, sem tekin var frá móður sinni, í fréttaskýringaþætti á Fox News í gær. 

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í dag að hann hyggist gera „eitthvað“ til að fjölskyldur sem koma yfir landamærin geti verið saman. Þó er enn lítið vitað um hvað það verður, eða hvaða áhrif það mun hafa. Samkvæmt lögum um varðhald barna, er ólöglegt að vista börn í fangabúðum lengur en 72 klukkustundir, og því hefur fjölskyldum hingað til verið sleppt að þeim tíma loknum, að því gefnu að þau mæti fyrir innflytjendarétt, sem er stefna sem Trump hefur harðlega gagnrýnt. Óvíst er því hvernig forsetatilskipun geri Trump annað kleift en snúa aftur til þeirrar stefnu.