Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Tíu undarleg smáforrit fyrir helgina

Mynd með færslu
 Mynd:

Tíu undarleg smáforrit fyrir helgina

26.01.2019 - 11:15

Höfundar

Hugvitsfólk í hugbúnaðargeiranum hefur þróað margskonar öpp í gegnum tíðina en þau eru mis-gagnleg. Við tökum saman tíu öpp sem eiga það sameiginlegt að vera frumleg eða hafa notagildi sem er ekki augljóst við fyrstu sýn.

Ýttu á takkann-appið

Fyrir þá sem hafa horft löngunaraugum á spennumyndir þar sem persónur ýta á rauða takka sem ekki má ýta á, er komin lausn. Notandinn getur ýtt á rauðan takka og tekið þannig úrslitaákvarðanir á ögurstundu með takmarkaðar upplýsingar til að byggja á. Þetta er kannski gagnlegra en það virðist við fyrstu sýn þar sem þetta getur veitt spennufíklum útrás án afleiðinga í staðinn fyrir aðrar og hættulegri leiðir. 

Smellið hér til að nálgast appið.

Kossa-appið

iFrenchKiss er smáforrit fyrir þá sem eru nógu óöryggir með kossatæknina sína til að fara í sleik við skjáinn á símanum sínum. Forritið gefur notandanum einkunn og metur tæknina eftir því. Í App store er fullyrt að hér sé ekki um neina handahófs-kennda vitleysu að ræða heldur sé hér fullkomið reiknirit að störfum sem metur tæknina út frá vísindalegri nálgun. Á sölusíðunni er jafnframt mælt með því að notendur noti þetta smáforrit til að brjóta ísinn í kerfjandi félagslegum aðstæðum.

Smellið hér til að nálgast appið.

Bjórdrykkju-appið

iBeer má ekki rugla saman við öllu gagnlegri Happyhour-smáforrit sem vísa notandanum á ódýran bjór í næsta nágrenni. Nei. Eini tilgangur þessa forrits er að gera grín af því taginu að það líti út fyrir að síminn sé fullur af bjór og þannig undirstrika gæði hallarmálsins í símanum. Það er einnig hægt að „hella bjór“ úr einum síma í annan. Notendur eru að vísu hæstánægðir með iBeer ef marka má einkuninna í App store en fleiri en 90 milljón niðurhöl hafa verið færð til bókar (ef marka má sölusíðuna) og forritið fær 4,4 í einkunn af 5 mögulegum eftir 660 umsagnir.

Smellið hér til að nálgast appið.

Mynd með færslu
 Mynd:
iBeer gæti verið hagkvæm og ódýr lausn fyrir þá sem vilja geta tekið bjór meðferðis hvert sem er

Milljón dollara-appið

$1000000 er aðgengilegt á vefsvæði gjörningalistamanna sem gerðu rafræna mynt að viðfangi sínu með stafræna listgjörningnum MON3Y.US. Þegar notandinn opnar forritið spyr karlmannsrödd: „Viltu verða ríkur eins og Rick Ross? Ertu þreyttur á að sjá aðra glenna peningana sína framan í þig?“ Þá heldur röddin áfram að útskýra að fyrir aðeins einn dollara geti notandinn hlaðið niður forritinu og flett í gegnum stór búnt af hundrað dollara seðlum undir hip hop-tónlist.

Hugmyndin að baki smáforritinu er útskýrð að hluta í grein Michelle Lhooq í Vice-veftímaritinu þar sem spurt er: Er Bitcoin aðeins gjörningalist?

Smellið hér til að nálgast appið.

RunPee-appið

Fyrir eldheita kvikmyndaunnendur er loksins komið smáforrit sem leysir stærsta vandamál hverrar kvikmyndahúsaferðar: Hvenær á að pissa? Forritið sækir gögn í 1300 kvikmynda gagnagrunn sem er uppfærður vikulega og þar má finna upplýsingar um framvindu í helstu stórmyndum sem koma út vestanhafs. Notandinn stillir klukku þegar náttúran kallar og forritið gefur síðan upplýsingar um allt sem fram fór á skjánum á meðan pissupásunni stóð svo að hann missi örugglega ekki af neinu.

Smellið hér til að nálgast appið.

Mynd með færslu
 Mynd:
Hér má sjá samantekt fyrir senu úr kvikmyndinni Blade Runner 2049 en senan þykir sérlega vænleg til að skreppa frá og létta á sér.

SMTH-appið

SMTH er auglýst sem íþrótta-smáforrit en SMTH er skammstöfun og stendur fyrir „Sendu mig til himna“. Hér er þó ekki verið að hvetja notendur til að láta af öllum ósiðum svo að þeir komist til himna að jarðlífi loknu, heldur er þvert á móti verið að hvetja notendur til að kasta símunum sínum eins hátt upp í loftið og þeir geta. Því hærra sem síminn fer, því betra. Síminn skráir hæðina og færir inn á stigatöflur. Þó er settur sá fyrirvari að notendur geri þetta á eigin ábyrgð en sumum gæti þótt heimskulegt að taka aðra eins áhættu með dýr rafmagnstæki.

Smellið hér til að nálgast appið.

Er dimmt úti? – appið

Fyrir þá sem búa í gluggalausum húsum eða hafa gróið fastir við sjónvarpið kemur þetta smáforrit vafalaust að góðum notum. Forritið upplýsir notandann um það hvort að dimmt sé úti með einföldu já-i eða nei-i, en einnig um sólarupprás og sólsetur sem gæti verið gagnlegt að vita fyrir ýmsar fagstéttir, til að mynda kvikmyndagerðarfólk eða ljósmyndara.

Smellið hér til að nálgast appið.

Mynd með færslu
 Mynd:
Það gæti ef til vill fært birtu inn í dimman dag hjá einhverjum að fá vel tímasett "yo" í símann sinn.

Yo-appið

Yo er auglýst sem einfaldasti samskiptamiðill heims. Í Yo getur notandinn sett upp lista yfir bestu vini sína og þegar smellt er á nafn sendir síminn skilaboðin „yo“ á viðkomandi, sem útleggst sem „hæ“. Yo getur ekki sent skilaboð af öðrum toga en „yo“. Sem er einfalt – og algjör snilld ef marka má fjárfesta sem lögðu til eina milljón bandaríkjadala í sprotafjármögnun á upphafsári fyrirtækisins 2014.

Smellið hér til að nálgast appið.

Pylsustríðs-appið

Fyrir áhugafólk um bardagalistir og pylsur slær smáforritið Sausage legend tvær flugur í einu höggi. Og það er pylsa sem reiðir til höggs, en þetta er leikur þar sem notandi getur valið úr fjölda pylsutegunda í einföldum bardagaleik. Þess má til gamans geta að pylsustríðs-appið hefur ekkert að gera með hið sögulega „pylsustríð“ eða orrustuna um Tolvajärvi árið 1939.

Smellið hér til að nálgast appið.

Geimbardaga-appið

Ef ykkur hefur einhvern tímann langað til að bjarga vetrarbrautinni frá einhverju á meðan þið öskrið bull-tækniorð á vini ykkar, þá er Geimbardaga-appið mögulega svarið. Notandinn getur ýtt á allskonar takka og leyst úr læðingi klippukjálkaða Flúxtrúníóna, meðal annars. Sjón er sögu ríkari.

Smellið hér til að nálgast appið.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Barnahákarl syndir inn á Billboard-listann

„Hægt að breyta símum í hlerunartæki“

Tækni og vísindi

Vafi hvort hægt sé að slökkva á staðsetningu

Erlent

Myndir notenda láku af Facebook