Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tíu sveitir á úrslitakvöldi Músíktilrauna

Mynd með færslu
 Mynd: Músíktilraunir

Tíu sveitir á úrslitakvöldi Músíktilrauna

22.03.2018 - 18:13

Höfundar

Úrslitakvöld Músíktilrauna fer fram laugardaginn 24. mars en þar etja tíu sveitir kappi sem hafa komist upp úr undankvöldunum fjórum. Sýnt verður beint frá úrslitunum á RÚV2, Rás 2 og RÚV.is, en útsending hefst kl. 17.00.

Músíktilraunir hófu göngu sína árið 1982 og hafa síðan þá gengt hlutverki stökkpalls fyrir ungar og óreyndar hljómsveitir. Fjöldi tónlistarmanna og hljómsveita sem byrjuðu ferilinn þar hafa átt mikilli velgengni að fagna í kjölfarið og jafnvel öðlast heimsfrægð. Þetta eru sveitirnar sem hafa komist áfram á úrslitakvöldið


200 MAFIA

200 MAFIA er strákahópur af Kársnesinu í Kópavogi. Liðsmenn hans eru Rino, Land Cruiser, Yung Machete, Svenni Lumm, K2, Fríó, Gaddakylfan og Sultan sem hafa verið að rappa og smíða takta í rúmlega tvö ár. „Þeir passa sig gjarnan á því að vera ekki of miklir Kings, en Kings eru þeir þó,“ segir kynningartexta frá Kársnesstrákunum.


Academia

Fimm krakkar úr mismunandi tónlistarskólum sem koma saman og spila tónlist vopnuð gítar, bassa, trommum og hljómborði. „Academic þýðir theoretical or hypothetical; not practical, realistic, or directly useful, eða á góðri íslensku fræðilegt eða ímyndað; ekki hentugt, raunverulegt eða beint nothæft“ segir í texta frá sveitinni sem leikur melódískt og áferðarfallegt indípopp.


Ateria

Hljómsveitina skipa Ása, Eir og Fönn sem allar hafa stundað tónlistarnám og tekið þátt í Stelpur rokka sumarbúðunum. Ása og Eir eru systur og Fönn er frænka þeirra en þær notast auk hefðbundinna rokkhljómfæra nokkuð mikið við selló í eins konar myrkrapoppi. Hljómsveitin var stofnuð haustið 2017 hefur aðsetur í bílskúr í Vesturbæ Reykjavíkur. Fönn sem leikur á trommur er aðeins 13 ára gömul.


Grey Hil Mars

Grey Hil Mars er tónlistarmaður sem er fæddur og uppalin í bítlabænum sjálfum Keflavík. Hann hefur leikið tónlist um margra ára skeið með ýmsum hljómveitum en stígur nú fram sóló og flytur hann lög úr eigin ranni, með hjálp frá vinum sínum sem spila undir á trommur og bassa.

 


Hugarró

Tríó úr Eyjafjarðarsveit sem er ekkert að flækja hlutina. Þrír sextán ára strákar og gítar, bassi, trommur. „Við erum þrír sveitalubbar sem höfum mikinn áhuga á mörgum tegundum af tónlist, þess vegna viljum við ekki festa okkur í einni tónlistarstefnu, við höfum samt voða gaman af klassíska pönkinu.“ Þeir segjast vera í tónlist til að skemmta sjálfur sér og vonandi öðrum.


Karma Brigade

Samanstendur af sex tónlistarmönnum á aldrinum 15-16 sem koma víðs vegar að á höfuðborgarsvæðinu. Hún hefur verið starfandi í rúmt ár og spilað víða miðbænum og sundlaugum Reykjavíkur. Þá spilaði sveitum á ýmsum torgum í Danmörku síðasta sumar og hyggur á Berlínarferð í ár.


Ljósfari

Upprunalega var hljómsveitin hugarfóstur gítarleikarans Árna og bassaleikarans Snorra. Síðar gekk söngvarinn Sigvaldi til liðs við þá og Benjamín sem skaffaði nauðsynlega hljómborðsmottur. Síðasta hráefnið var svo pumpandi hjarta sveitarinnar, Kristófer trommari. Saman mynda þessir menn hljómsveitina Ljósfari og vinnur hún að eigin sögn markvisst að því að semja skemmtileg lög með dansandi hryn og grípandi laglínum.


Madre Mia

Stöllurnar Katrín Lea, Hekla María og Sigríður Sól frá Akranesi skipa Madre Miu. Þær hafa sterkan grunn úr tónlistarskólanum á Akranesi þar sem þær kynntust, en þær eru allar 14-15 ára gömlur. Tvær þeirra hafa unnið Hátónsbarkakeppni grunnskólanna á Akranesi og ein þeirra er svo á leið á Samfés í ár.


Mókrókar

Hljómsveitin Mókrókar varð til í kjölfar þess að hafa troðið upp á skemmtifundi félags íslenskra harmonikku-unnenda ásamt Flemming Viðari harmonikkuleikara. Eftir að hafa leikið alla gömlu dansana fram og aftur ákvað hljómsveitin að halda á ný mið og byrja að semja og spila spunatónlist. Þá hefur tríóið einnig komið fram undir öðrum nöfnum og leikið jazz og fönk á hinum ýmsu börum og veitingastöðum.


Umbra

Hljómsveitin Umbra samanstendur af þremur 15 ára Hagskælingum, Eiri Ólafsdóttur, Eyrúnu Úu Þorbjörnsdóttur og Nínu Solveigu Andersen. Þær hafa allar spilað á hljóðfæri síðan þær voru litlar og nýta sér þá kunnáttu auk þess sem þær spila á hljóðfæri sem þær kunna minna á. Hljómsveitin var stofnuð nokkrum vikum fyrir Músíktilraunir en hljómsveitarmeðlimir hafa þekkst í nokkur ár. Nafnið Umbra merkir skuggi á latínu og er dregið af einu af fylgitunglum Úranusar, Umbriel.

Tengdar fréttir

Tónlist

Kosning: Bestu sigursveitir Músíktilrauna