Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Tíu sveitarfélög fá aðvörunarbréf

26.10.2014 - 19:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Tíu sveitarfélög hafa fengið bréf frá eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga í kjölfar yfirferðarnefndarinnar á ársreikningum. Ástæðan er horfur á hallarekstri yfir þriggja ára tímabil en slíkt brýtur í bága við sveitarstjórnarlög.

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum verða sveitarfélög að skila rekstrarafgangi yfir þriggja ára tímabil. Er þá miðað við ársreikning síðasta árs og fjárhagsáætlun yfirstandandi árs og þess næsta. Þegar eftirlitsnefndin fór yfir ársreikninga síðasta árs kom í ljós að útlit er fyrir að tíu sveitarfélög skili ekki rekstrarafgangi á árunum 2013 til 2015, og standast því ekki þetta ákvæði sveitarstjórnarlaga. Þetta eru Reykjanesbær, Sveitarfélagið Vogar, Borgarbyggð, Stykkishólmsbær, Helgafellssveit, Skagabyggð, Akrahreppur, Þingeyjarsveit, Fljótsdalshérað og Fljótsdalshreppur. Eftirlitsnefndin óskar í bréfunum eftir útskýringum á frávikum í rekstri síðasta árs frá fjárhagsáætlun ásamt upplýsingum um aðgerðir til að standast kröfur laganna.

Vandi sveitarfélaganna er misjafn. Þegar rýnt er í samantekt Sambands íslenskra sveitarfélaga á ársreikningum 2012 kemur þó í ljós að hjá öllum tíu sveitarfélögunum var hlutfall veltufjár frá rekstri undir meðaltali, en veltufé er það sem sveitarfélög hafa til að framkvæma eða greiða niður skuldir. Hjá þremur sveitarfélögum var veltufé undir tekjum - í Vogum, Helgafellssveit og Þingeyjarsveit.

Þá kemur einnig í ljós að Reykjanesbær, Vogar, Borgarbyggð, Stykkishólmsbær og Fljótsdalshérað skulda yfir 150 prósenta af tekjum, en það eru mörkin sem eru sett í sveitarstjórnarlögum. Sveitarfélögin hafa þó fjögur ár til þess að ná því hlutfalli niður.

Eftirlitsnefndin ákveður þegar skýringar hafa fengist frá sveitarfélögunum hvort frekar verður aðhafst í málum þeirra.

Uppfært: Í upphaflegri útgáfu var sagt að Þingeyjarsveit skuldaði 150% af tekjum. Það er ekki rétt og er beðist velvirðingar á því. Þá skal tekið fram að veltufé var ekki undir tekjum í ársreikningi 2013 hjá sveitarfélaginu, þó að svo hafi verið árið 2012.