Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Tíu spánný jólalög í jólapartýið þitt

Mynd með færslu
 Mynd:  - Pexels

Tíu spánný jólalög í jólapartýið þitt

12.12.2017 - 17:43

Höfundar

Ein óvæntasta tískubylgja ársins kann að vera jólalagaæði sem hefur gripið um sig í tónlistarbransanum. Sia og Gwen Stefani senda frá sér jólaplötur, Mariah Carey snýr aftur með jólaballöðu og Hanson bræður mæta galvaskir frá tíunda áratugnum. Spotify streymisveitan á síðan stórleik með 26 laga útgáfu þar sem stærstu stjörnurnar taka ábreiður af frægum jólalögum.

Sia – Santa‘s Coming for Us

Áttunda breiðskífa áströlsku söngkonunnar Siu er jólaplata og heitir Everyday is Christmas, eða Alla daga eru jól, sem hljómar glettilega líkt íslenska slagaranum Jól alla daga. Og það hafa svo sannarlega verið jól alla daga hjá Siu, eða að minnsta kosti síðan 30. október þegar fyrsta lag plötunnar, Santa‘s Coming for Us kom út. Platan sjálf hefur hlotið dræmar viðtökur meðal gagnrýnenda og almennings. Þrátt fyrir það hefur lagið fengið gríðarlega spilun og sér í lagi á streymisveitunni Youtube, en mikið hefur verið lagt í framleiðslu tónlistarmyndbandsins. Þar sést leikkonan Kristen Bell leika húsmóður á fyrirmyndarheimili sem fagnar hátíðinni í yfirgengilegri sælu þar sem allt er í stíl sjötta áratugarins. Yfirbragð myndbandsins er yfirmáta glaðlegt og yfirdrifið, en að sama skapi óeinlægt og eilítið undarlegt, og lítur að einhverju leyti út eins og ádeila á ímyndarsköpun og yfirborðsmennsku í jólahaldi. [Innsk. blm. Það er eina mögulega útskýringin.]

Pentatonix – Away in a Manger

Pentatonix er ekki ný hárvara á markaðnum heldur sönggrúppa frá Texas, sem var stofnuð árið 2011. Pentatonix hefur síðan unnið sig upp vinsældarlistana jafnt og þétt en þau gera út á að flytja ábreiður af lögum vinsælla tónlistarmanna, en þar má nefna sem dæmi Daft Punk, en útgáfa Pentatonix af tónlist Daft Punk hefur fengið yfir 250 milljón spilanir á Youtube. Tónlistin þeirra einkennist af metnaðarfullum og tæknilega útpældum raddútsetningum, sem henta jólatónlist sérstaklega vel. Útgáfa þeirra af jólasálminum Away in a Manger hefur hlotið mjög góðar viðtökur en þegar þetta er skrifað hefur myndbandið við lagið verið spilað 8 milljón sinnum á Youtube, en það var sett þangað inn í lok október.

Mariah Carey – The Star

Sony Pictures Animation hafa sent frá sér jólamyndina The Star, en sagan byggir á fæðingu frelsarans. Þó er efnið hér nálgast á fremur óhefðbundin hátt en í stað hefðbundinna aðalpersóna eru það hinar minna þekktu hetjur, dýrin sem stödd voru í fjárhúsinu forðum þegar barnið var í jötu lagt. Asninn er í aðalhlutverki en auk hans koma við sögu talandi úlfaldar, hestar og lömb.

The Star er sneisafull af frumsaminni jólatónlist eftir poppstjörnur, en ein skærasta jólastjarna tónlistariðnaðarins Mariah Carey á og flytur titillagið. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hún syngur lag fyrir teiknimynd sem byggir á Biblíusögu en hún söng slagarann „When You Believe“ ásamt Whitney Houston fyrir kvikmyndina The Prince of Egypt árið 1998. Lagið sló í gegn og hlaut Óskarsverðlaun árið 1999. Mariah á síðan eina mest seldu jólaplötu allra tíma, Merry Christmas frá árinu 1994.

Fifth Harmony – Can You See

Bandaríska stelpubandið Fifth Harmony á einnig lag í The Star, en bandið samanstendur af fjórum söngkonum um tvítugt, og starfar undir handleiðslu poppgúrúsins og umboðsmannsins Simon Cowell og var stofnað í gegnum raunveruleikaþáttinn X-Factor. Ásamt Cowell höfðu Demi Lovato, L.A. Reid og Britney Spears hönd í bagga þegar bandið var stofnað. Fifth Harmony sérhæfir sig í sykursætu og vélrænu poppi. Þær eiga jólalagið Can You See.

Demi Lovato – I‘ll be home for Christmas

Í nóvember gaf Spotify tónlistarveitan út nýjan tónlista með tuttugu og sex nýjum jólalögum, að mestu leyti ábreiðum vinsælla tónlistarmanna, til að koma hlustendum í almennilegt jólaskap.

Hluti laganna er tekinn upp í sérlegu upptökuveri Spotify í New York, og sem dæmi um slíkt má nefna jólalag með söngkonunni Demi Lovato. Hún er fædd 1992 en þrátt fyrir ungan aldur á hún fimmtán ára feril að baki, sem söng- og leikkona. Hún flytur gamla slagarann I‘ll be Home for Christmas sem Bing Crosby gerði frægt árið 1943, í seinna stríði, en lagið var samið og flutt til heiðurs hermönnum sem þráðu að komast heim til sín fyrir jól.

Sam Smith – The River

Enski látúnsbarkinn Sam Smith flaug upp á stjörnuhimininn í október 2012 þegar hann söng lagið „Latch“ með danssveitinni Disclosure. Síðan þá hefur ferill hans verið í blóma en hann gaf út plötuna In The Lonely Hour í maí 2014, sem aflaði honum fjögurra Grammy verðlauna sama ár. Joni Michell er ein af hans stærstu fyrirmyndum í tónlistinni og Smith sagði á Twitter þegar lagið kom út að hún væri ein af helstu ástæðum þess að hann starfaði við lagasmíðar.

Gwen Stefani og Blake Shelton – You Make It Feel Like Christmas

Ameríska poppdívan Gwen Stefani er 48 ára gömul en það eru liðin 22 ár síðan hljómsveitin No Doubt sigraði hug og hjörtu tónlistarunnenda um allan heim með rokkballöðunni Don‘t Speak á plötunni Tragic Kingdom. Þá var hún söngkonan í ska-skotna rokkbandinu sem stofnað var árið 1986. Árið 2004 hóf Stefani sólóferil með plötunni Love. Angel. Music. Baby, en þrátt fyrir vafasaman titil sló platan í gegn með lögum á borð við Rich Girl og Hollaback Girl. Hún hefur haldið sig í sviðsljósinu síðan og ásamt tónlistarútgáfu hefur hún starfað sem fatahönnuður undir eigin merki, L.A.M.B. Árið 2015 kynntist hún tónlistarmanninum Blake Shelton, sem er einn vinsælasti kántrísöngvari vestanhafs um þessar mundir og var einnig útnefndur sem kynþokkafyllsti maður heims af tímaritinu People, sem heldur úti slíkum listum. Hann hefur vafalaust orðið henni innblástur að efni á hennar fyrstu jólaplötu sem kom út í september, en parið flytur titillag plötunnar.

Hanson – Finally it‘s Christmas

Loksins koma jólin, syngja Hanson bræðurnir frá Oklahóma, sem við heyrðum síðast í um miðbik tíunda áratugarins þegar þeir lögðu heiminn að fótum sér með slagaranum MMMBop. Finally It‘s Christmas er fyrsta útgáfan af samnefndri plötu sem er þó ekki fyrsta plata þeirra bræðra. Árið 1997 kom út platan Snowed In sem naut nokkurra vinsælda, en sló í gegn í Svíþjóð og komst þar í 14. sæti yfir söluhæstu plöturnar á því ári.

98º - Season of Love

Ef bandarísk strákabönd koma lesendum í jólaskap geta þeir glaðst yfir því að poppgrúppan 98° hafi sent frá sér jólalagið Season of Love, sem mætti þýða sem Ástarárstímann, en sveitin eru þekkt fyrir yfirgengilega tilfinningaríka tjáningu og texta sem fjalla að öllu leyti um hjartans mál á opinskáan hátt.

Jólalag Rásar 2 - árið 2017

Að lokum er vert að minnast á jólalagakeppni Rásar 2, en síðasti dagur til að kjósa sitt eftirlætis nýja íslenska jólalag er miðvikudagurinn 13. desember.