Tíu ráð til að fá tíu í prófunum

Mynd með færslu
 Mynd: Pexel

Tíu ráð til að fá tíu í prófunum

24.11.2018 - 12:49
Nocco, nammipoki og námsbækur verða líklegast með því eina sem að kemst fyrir á skrifborðum þjakaðra námsmanna nú þegar lokaprófatörn hefst í skólum landsins. Markmið flestra er að líklegast að standa sig vel og þá er ekki verra að renna yfir nokkur góð prófaráð.

1. Lestu yfir önnina. Þetta ráð gæti komið of seint fyrir suma en það nýtist þá í næstu prófatörn. Að þurfa að frumlesa allt efni námskeiðs á þeim fáu dögum sem að þú hefur fyrir lokaprófið er ekki bara erfitt heldur getur verið næstum ómögulegt þegar um er að ræða þúsundir blaðsíðna. Að lesa jafnt og þétt yfir önnina og yfirstrika eða glósa mikilvæg atriði hjá sér getur sparað mikinn tíma þegar kemur að upprifjun. 

Yfirstrikunarpennar og gleraugu ofan á skólabók.
 Mynd: Pixabay

2. Skipuleggðu þig. Skrifaðu niður þær dagsetningar sem að skipta máli, hvenær ferðu í hvaða próf og klukkan hvað. Sum próf krefjast meiri yfirferðar en önnur og það er mikilvægt að reyna að gefa sér hæfilegan tíma í samræmi við það. Skipuleggðu hvern dag fyrir sig, klukkutíma fyrir klukkutíma, settu það upp í tölvu eða skrifaðu það niður á blað og hafðu fyrir framan þig á meðan þú lærir. 

Mynd með færslu
 Mynd: burst.shopify.com

3. Taktu pásur. Eins mikilvægt og það getur verið að læra þá er ekki síður mikilvægt að taka sér pásur. Heilinn okkar verður að fá reglulega pásu til þess einfaldlega að hann geti meðtekið allt sem að við erum að reyna að troða inn í hann. Skiptu deginum niður og taktu reglulegar pásur á milli þess að þú lærir. Það eru til fjölmörg öpp til þess að hjálpa manni að halda utan um þann tíma sem að fer í lestur og pásur, Focus Booster og Forest, eru aðeins brot af þeim sem í boði eru. Ef að þú átt erfitt með að einbeita þér lengi þá hjálpar mörgum að hlusta á tónlist og þá er klassísk tónlist einstaklega þægileg. 

4. Borðaðu (ekki bara nammi). Heilinn þarf víst næringu og þó svo að það geti verið freistandi að láta nammipokann duga út daginn er mun sniðugra að reyna bara að borða eins venjulega og maður getur. Ef maður vill ekki eyða of miklum tíma í að elda og borða er til dæmis hægt að elda eitthvað daginn áður og hita það svo. Ef að þú ert einn af þeim sem að verður að hafa eitthvað að narta í geta hnetur, ávextir og grænmeti komið í staðinn fyrir nammi. 

Múslí með ávöxtum.
 Mynd: Pixabay

5. Hreyfðu þig. Það fer ekki vel með líkamann að húka inni í herbergi yfir námsbókum og því tilvalið að nýta pásurnar í það að standa upp, teygja úr sér, jafnvel fara í göngutúr eða í ræktina. 

Kona sem kvelst við teygjur
 Mynd: Ryan McGuire - Gratisography

6. Skipuleggðu glósurnar. Líklegast hefur þú sankað að þér fjöldanum öllum af glósum sem að geta virst yfirþyrmandi við fyrstu sýn. Taktu þér tíma í að lesa þær yfir, stroka það út sem að skiptir engu máli og undirstrika það sem að skiptir miklu máli. Það getur líka  hjálpað að handskrifa mikilvægustu hlutina niður eða setja þá í hugarkort. Það er nefnilega vísindalega sannað að maður man frekar það sem maður handskrifar heldur en það sem maður les bara eða skrifar í tölvu. 

7. Lærðu rétt fyrir prófið. Það er ekki eins að læra fyrir krossapróf og fyrir skriflegt ritgerðarpróf. Hugarkort geta verið mjög góð til þess að átta sig betur á hugtökum og tengingum þeirra á milli og henta því vel fyrir próf þar sem að þú þarft að geta skrifað mikið og krafist er djúprar þekkingar, þá getur líka verið gott að hittast nokkur saman og tala um efnið til þess að öðlast betri skilning á því. Glósumiðar með hugtökum öðru megin og útskýringu hinu megin henta hins vegar vel fyrir krossapróf sem að krefjast ekki endilega dýpri þekkingar á námsefninu. Vefsíður eins og Quizlet geta verið mjög hjálplegar ef þarf að fara yfir mikið af hugtökum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is

8. Slökktu á símanum. Stærsta vandamál margra er að geta ekki slitið sig frá símanum og hvert einasta „ping“ beinir athyglinni að öðru en lærdómnum. Fyrir þá sem að treysta sér ekki til þess að slökkva algjörlega á símanum gæti verið gott að setja hann á „ekki trufla stillinguna“ (e.do not disturb) þannig að hann gefi ekki frá sér hljóð eða titring. Svo er hægt að verðlauna sig með smá símatíma þegar lestrartíminn er uppfylltur. 

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay

9. Sofðu. Það hjálpar engum að drekka endalaust af kaffibollum eða orkudrykkjum, vaka alla nóttina daginn fyrir próf og mæta þangað nær dauða en lífi. Svefn er gífurlega mikilvægur á prófatímabilinu og heilinn meðtekur lítið ef að hann fær engan svefn. Það er því betra að vakna frekar snemma, nýta daginn og fara snemma að sofa heldur en að vaka langt fram á nótt.

Mynd með færslu
 Mynd: burst.shopify.com

10. Ekki stressa þig að óþörfu. Á prófdegi skaltu vakna snemma, sumum finnst þægilegt að renna létt yfir efnið, öðrum ekki. Fáðu þér góðan morgunmat, og hádegismat ef prófið er seinnipartinn. Legðu tímanlega af stað í prófið þannig að umferðarteppa eða seinkun á strætó búi ekki til óþarfa stress. Reyndu að gleyma engu sem að þú þarft, skilríki, penna, blýanti eða reiknivél. Í prófinu sjálfu er svo gott að reyna bara að slaka á, lesa yfir allt prófið, byrja á því sem að þú haldir að taki lengstan tíma, eða á því sem að gildir mest. Taktu þinn tíma og einbeittu þér bara að þér og þínu prófi.  

Gangi þér vel og góða skemmtun!