Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tíu nýir umhverfisvænir strætisvagnar

Mynd: Kristín Sigurðardóttir / RÚV
Stefnt er að því að kaupa tíu nýja rafmagnsstrætisvagna í flota Strætó bs á næsta ári. Þetta eru tveimur fleiri en upphaflega var ráðgert og er ástæðan fyrirhugaðar skattaívilnanir samkvæmt frumvarpi fjármálaráðherra. Framkvæmdastjóri Strætós segir að flýta megi orkuskiptunum í strætisvagnaflotanum.

Rafmagnshjólum, rafbílum og rafmagnsstrætisvögnum gæti fjölgað á götunum því fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram frumvarp um ívilnanir vegna vistvænna ökutækja, rafmagnsreiðhjóla og annarra reiðhjóla sem hefur verið samþykkt í ríkisstjórn. Ráðherra stefnir á að leggja frumvarpið fram á Alþingi á næstu dögum og vonast til að það verði afgreitt fyrir áramót.

Í því felst að virðisaukaskattur verður felldur burt af:

  • rafmagnshjólum
  • öðrum reiðhjólum.
  • rafmagns- og vetnisbílum.
  • rafmagns- og vetnismótórhjólum
  • léttum bifhjólum knúin rafmagni eða vetni.
  • efni og vinnu við uppsetningu heimahleðslustöðva.
  • hópbifbreiðum í almenningsakstri sem nota eingöngu metan, metanól, rafmagn eða vetni sem orkugjafa.

Virðisaukaskattur mun að nýju leggjast á bíla sem ganga bæði fyrir rafmagni og bensíni eða dísilolíu árið 2021.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV

Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., segir fyrirhugaðar skattaívilnanir breyta miklu.

„Við fögnum þessu langþráða skrefi. Þetta breytir ýmsu. Við getum væntanlega keypt fleiri og hraðað orkuskiptunum. Þetta eru dýrari vagnar þannig að allar svona ívilnanir eru vel þegnar. Við höfum verið að kaupa vagna fyrir um 300 milljónir á ári. Við stefnum að því að kaupa fyrir 500 milljónir á næsta ári. Þannig að þetta gæti þýtt hátt í tvo vagna aukalega og það munar um minna,“ segir Jóhannes.

Rafmagnsvagnar séu ódýrari í rekstri. Vagnar Strætós eru alls 160. Jóhannes vonast til þess að tíu verði keyptir á næsta ári. 

„Ef þetta gengur eftir þá verða 24 rafvagnar, síðan erum við með þrjá metanvagna og reyndist bætist einn metanvagn í hópinn í lok árs. Þannig að það verða þá orðnir 28 vagnar,“ segir Jóhannes.