Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tíu lögreglumenn felldir í Búrkína Fasó

28.12.2018 - 03:51
epa05104418 A soldier secures a street outside the Splendid Hotel in Ouagadougou, Burkina Faso, 15 January 2016. At least 20 people were killed on 15 January in a terrorist attack on a restaurant and hotel in the capital of the western African country of
Hryðjuverkamenn úr röðum öfgasinnaðra íslamista hafa einnig gert mannskæðar árásir í Ougadougu síðustu misseri. 30 fórust í árás á Splendid-hótelið þar í borg í janúar 2016.  Mynd: EPA
Tíu lögreglumenn voru felldir og þrír særðir þegar þeim var gerð fyrirsát í norðvesturhluta Búrkína Fasó á fimmtudag. Öryggismálaráðherra landsins greindi frá þessu. Flokkur lögreglumanna var á leið til þorpsins Loroni, nærri landamærunum að Malí, til að aðstoða við leit og mögulegar aðgerðir gegn vígamönnum sem þar réðust á skólabyggingu, unnu þar skemmdarverk og brenndu kennslubækur, samkvæmt heimildum AFP-fréttastofunnar. Tveir þeirra sem særðust hlutu alvarlega áverka.

Hryðjuverkaárásir hafa færst í aukana í Búrkína Fasó á allra síðustu árum. Framan af réðust hryðjuverkamenn einkum til atlögu í norðurhluta landsins, segir í frétt AFP, en eru nú farnir að stunda illvirki sín víðar, ekki síst nærri landamærunum að Tógó og Benín í austri. Flestar árásirnar eru framdar af tveimur hreyfingum öfga-íslamista, Ansarul Islam og JNIM, sem hefur svarið Al Kaída hollustu sína. Er talið að vígamenn þessara tveggja hreyfinga hafi banað minnst 255 manns síðan 2015. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV