Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Tíu látnir í Bandaríkjunum vegna Matthíasar

09.10.2016 - 12:42
Mynd með færslu
 Mynd: AP
Matthías telst nú ekki lengur fellibylur, og er nú skilgreindur sem hitabeltisstormur. Bandarísk yfirvöld ítreka þó að Matthías geti enn valdið usla.

Þrír létust í gær af völdum Matthíasar í Georgíu, þrír í Norður-Karólínu auk þeirra fjögurra sem höfðu látist í Flórída.

Á fjórða þúsund flugferðum hefur verið aflýst á austurströnd Bandaríkjanna, og enn eru víða rafmagnstruflanir. Vindhraðinn í Matthíasi er enn mikill, þó hann teljist ekki lengur fellibylur, en meðalvindhraðinn er enn yfir 30 metrar á sekúndu.

Matthíasi hafa fylgt mikil flóð í Karólínuríkjunum tveimur, og Georgíu og víða voru gefnar út viðvaranir um möguleg skyndiflóð.

Matthías stefnir nú aftur út á Atlantshaf sem hitabeltislægð.

Jón Þór Víglundsson
Fréttastofa RÚV