Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tíu kjósendur á mánuði fái að ávarpa þingfund

24.10.2018 - 20:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þingflokkur Pírata hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um að á hverjum mánuði skuli allt að tíu almennum borgurum heimilað að ávarpa þingfund um málefni líðandi stundar. Hvert ávarp megi ekki standa lengur en tvær mínútur og skulu borgararnir valdir af handahófi úr kjörskrá.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að ekki sé að finna fordæmi fyrir því á Norðurlöndunum að kjósendur geti tekið til máls í þingsal - og að slík ákvæði sé ekki heldur að fnina í íslenskum lögum. Fram hafi komið tillögur um hvernig auka megi áhrif hins almenna borgara á störf þingsins. Í tillögum stjórnlagaráðs hafi verið að finna ákvæði um þingmál að frumkvæði kjósenda. Með þessu frumvarpi sé ekki verið að leggja til þann möguleika að kjósendur geti lagt fram þingmál heldur einvörðungu að þeir geti ávarpað þingfund. 

Fordæmi séu fyrir því að aðrir en þingmenn, ráðherrar og forseti Íslands taki til máls á þingfundi og dæmi um slíkt sé ávarp sé þegar Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins, hélt hátíðarræðu á hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum í sumar.

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir