Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Tíu í haldi vegna árásar í París 2015

26.04.2017 - 13:55
epaselect epa04552947 Police officers stand in front of HyperCasher supermarket at Porte de Vincennes in eastern Paris, a day after a gunman took hostages and opened fire, France, 10 January 2015. The gunman was said to be the same shooter who had killed
Lögreglumenn við verslunina eftir árásina í janúar 2015. Mynd: EPA
Tíu eru í haldi í tengslum við rannsókn á árás á verslun í eigu gyðinga í París í janúar 2015. Fréttastofan AFP hefur eftir heimildarmönnum tengdum rannsókninni. 

Amedy Coulibaly, sem hafði heitið hollustu við hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið, réðst inn í verslunina, tók fólk í gíslingu og myrti fjóra. Hann var veginn þegar sérsveitarmenn lögreglu létu til skarar skríða. Kvöldið áður myrti hann lögreglukonu í úthverfi Parísar.

Að sögn AFP hefur rannsókn lögreglu beinst að því hvar Coulibaly fékk vopnin sem hann notaði, en í haldi sé maður að nafni Claude Hermant, grunaður vopnasali.

Atburðirnir í versluninni voru tveimur dögum eftir árásina á skrifstofur tímaritsins Charlie Hebdo þegar tveir menn skutu tólf til bana og særðu ellefu.  

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV