Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Tíu hyggja á framboð til sveitarstjórna

Mynd með færslu
 Mynd: AP Images - RÚV
Að minnsta kosti tíu stjórnmálaflokkar stefna að framboði fyrir borgarstjórnarkosningar í Reykjavík á næsta ári. Undirbúningur fyrir kosningarnar er víða hafinn.

Kosið verður til sveitarstjórna í lok maí á næsta ári, eftir rúma fjórtán mánuði. Þó það sé langur tími í pólitík þá eru stjórnmálaflokkar byrjaðir að undirbúa sig fyrir kosningarnar. Viðreisn stefnir að framboði til sveitarstjórna í fyrsta skipti á næsta ári. Innan flokksins er undirbúningsvinnan hafin, starfshópur hefur verið skipaður og verið er að undirbúa stofnun félaga víða um land. 

„Við erum bara í startholunum, þetta er gríðarlega spennandi tímar framundan hjá okkur. Þetta er næsta stóra stökkið fyrir Viðreisn að hefja þessa baráttu,“ segir Jóna Sólveig Elínardóttir, varaformaður Viðreisnar. Enn liggur þó ekkert fyrir um það hvar eða hversu víða verður boðið fram.

„Það er í raun ekki alveg tímabært að segja, við erum með öflugt fólk að vinna hérna á höfuðborgarsvæðinu, vissulega, og eigum mjög sterkt og gott bakland á höfuðborgarsvæðinu. En það sama má líka segja um mitt kjördæmi og kjördæmi formannsins,“ segir Jóna og vísar þar til suður- og norðausturkjördæmis.

En Viðreisn er ekki eini nýi flokkurinn sem stefnir að framboði á næsta ári. Það gerir líka Flokkur fólksins. Ekki liggur fyrir hvar stefnt verður að framboði, þó verður lögð áhersla á framboð í Reykjavík.

Af eldri flokkum má nefna að Dögun stefnir aftur á framboð í sveitarstjórnakosningunum á sem flestum stöðum. Rætt var um framboðsmál á síðasta framkvæmdaráðsfundi þeirra.

Alþýðufylkingin hyggst líka bjóða fram að nýju en ekki liggur fyrir hve víða. Flokksfélög hafa verið stofnuð víða undanfarin misseri og búast má við umræðu um framboðsmál á landsfundi flokksins um helgina.

Það má því reikna með að minnsta kosti tíu framboðum í Reykjavík að ári, sömu átta flokkar og buðu fram síðast, auk tveggja nýrra.

 

Heiðar Örn Sigurfinnsson
Fréttastofa RÚV
asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV