Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tíu borgir óska aðstoðar ESB vegna Airbnb

20.06.2019 - 23:00
Mynd með færslu
Íbúum Madrídar og fleiri borga ofbýður starfsemi húsnæðismiðlana, svo sem Airbnb. Mynd: CC0 - Pixabay
Yfirvöld í tíu borgum í Evrópu krefjast þess að Evrópusambandið grípi til aðgerða til að stemma stigu við útleigu húsnæðis í gegnum vefinn Airbnb. Slíkt valdi hækkun á leiguverði sem geri það að verkum að íbúar hafi ekki lengur efni á íbúðum.

Undir bréfið skrifa borgaryfirvöld í Amsterdam, Barcelona, ​​Berlín, Bordeaux, Brussel, Kraká, München, París, Valencia og Vín samkvæmt frétt Guardian. Þar segir að sprenging í fjölda eigna sem leigðar eru út í gegnum síðuna verði að vera á dagskrá næsta fundar nýrrar stjórnar Evrópuráðsins.

Borgir eigi að vera fyrir íbúa en ekki ferðamenn, víða sé alvarlegur húsnæðisskortur og þegar húsnæði sé leigt ferðamönnum til skamms tíma dragist framboð enn frekar saman.

Yfirvöld í borgunum tíu segja að þau verði að geta takmarkað starfsemi Airbnb og sambærilegra leigusíðna með reglugerðum, til að koma í veg fyrir hækkanir á leiguverði og ferðamannavæðingu íbúðahverfa.

Í Amsterdam og Barcelona eru yfir 18 þúsund eignir skráðar til útleigu á Airbnb, í Berlín rúmlega 22 þúsund og tæplega 60 þúsund í París.