Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Tíminn rann út án þess að fjármagn fengist

28.03.2019 - 08:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Skúli Mogensen, forstjóri Wow Air, segir að tíminn til að bjarga flugfélaginu hafi runnið út án þess að það tækist að tryggja fjármögnun þess. Þetta segir hann í bréfi til starfsmanna fyrirtækisins. „Ég hefði aldrei trúað því að til þessa kæmist en við höfum neyðst til að hætta starfsemi og skila inn flugrekstrarleyfi okkar.“

Skúli segir að starfsfólk hafi lagt sig allt fram og kveðst sérstaklega stoltur af því hvernig fólk hafi staðið saman að því í vetur að endurskipuleggja rekstur flugfélagsins og gera það aftur að lágfargjaldaflugfélagi. Það hefði gagnast félaginu vel fyrstu árin og Wow-andinn hefði vaknað aftur.

„Ég get aldrei fyrirgefið mér að hafa ekki gripið til ráðstafana fyrr því það er ljóst að Wow var ótrúlegt flugfélag og við vorum á réttri leið til að gera frábæra hluti á ný,“ segir Skúli í bréfinu. „Ég vildi að við hefðum haft meiri tíma og gætum gert meira því þið verðskuldið betra en þetta og mér þykir afskaplega leitt að hafa komið ykkur í þessa stöðu.“