„Times they are a changin“

17.10.2016 - 17:36
Eva Joly vitnaði til eins þekktasta verks Nóbelskáldsins, Bobs Dylan, þegar hún svaraði því hvort birting Panama-skjalanna ættu eftir að hafa raunveruleg áhrif í baráttunni gegn skattaskjólum og efnahagsbrotum. Lúx-lekinn svokallaði og uppljóstranir um sérsamninga stórra alþjóðafyrirtækja við yfirvöld í Lúxembúrg hafi líka haft sitt að segja. Skattaundanskot séu tekin mun harðari tökum; bæði með hertri löggjöf í ríkjujm eins og Bandaríkjunum og Panama og með markvissari aðgerðum.

Rætt var við Evu Joly í Kastljósi í kvöld. Hún er nú stödd hér á landi í boði Pírata sem héldu í dag málþing um baráttu gegn skattaskjólum og skattaundanskotum. Joly hefur í áratugi barist gegn efnahagsbrotum; sem rannsóknardómari í Frakklandi, ráðgjafi íslenskra stjórnvalda og svo sem þingmaður Græningja á Evrópuþinginu. Hún er nú varaformaður nefndar sem sett var á laggirnar til þess að rannsaka frekar og leggja til aðgerðir í kjölfar birtingar Panama-skjalanna svokölluðu.

Eva Joly sagði kjósendur hafa fullt leyfi og gildar ástæður fyrir því að efast um fullyrðingar stjórnmálalmanna sem ekki birtu öll gögn um viðskipti fyrirtækja sinna á aflandseyjum og fjármálaupplýsingar þeirra. Það setji engin upp flókin aflandsrekstur með miklum kostnaði að ástæðulausu.

Viðtalið við Evu Joly má nálgast í spilaranum hér að ofan.

helgis's picture
Helgi Seljan
Fréttastofa RÚV
Kastljós