Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Tímaspursmál hvenær bergfyllan fellur

24.07.2015 - 19:53
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aðeins er talið tímaspursmál hvenær stór bergfylla fellur úr Ketubjörgum á Skaga. Sprunga í bjargbúninni gliðnar stöðugt. Ekkert viðvörunarskilti er við sprunguna en strengur afmarkar varasamasta svæðið.

Snemma í vor tóku heimamenn á Skaga eftir því að sprunga hafði myndast á brún Ketubjarga í Syðri-Bjargavík. Í ljós kom að stór bergfylla hafði þá losnað frá sjálfu bjarginu. Þarna hafa í gegnum tíðina orðið miklar breytingar. Bregið er veikt, sprungur myndast í því og síðustu ár hafa stórar spildur fallið þarna fram. 

„Þetta er bara eins og gerist oft, það smásaman sígur og svo bara hrynur það einn góðan veðurdag. Og svo hrundi mikið utan við björgin í vor, alveg feikna haugur, segir Hrefna Gunnsteinsdóttir,“ bóndi á Ketu. 

Því sé ómögulegt að segja hvenær þessi tiltekna bergfylla fer. Lögreglan á Sauðárkróki hefur fylgst með þessari þróun og segir að sprungan gliðni jafnt og þétt. Og ef vel er að gáð sést að önnur sprunga er að myndast þarna á brúninni. Engar upplýsingar eru á staðnum sem vara við hættunni, en lögreglan setti streng sem takmarkar aðgengi að hættulegasta staðnum. Þarna er talsverð umferð ferðamanna, enda mikil náttúrfegurð. Ég vona að það hafi vit á að passa sig. Ef það hefur eitthvað í hausnum, þá hlýtur það að sjá að það er hættulegt að fara þarna,“ segir Hrefna. 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV