
Tímamót á Kúbu, Castro hættir sem forseti
Þótt Díaz-Canel taki við forsetaembættinu verður hinn 86 ára gamli forveri hans ekki langt undan, því Raúl Castro verður formaður Kommúnistaflokksins til 2021 hið minnsta, endist honum ævi til. Díaz-Canel verður 58 ára gamall á morgun, föstudag. Hann hefur gegnt stöðu fyrsta varaforseta Kúbu síðustu ár og er einn allra nánasti samherji Raúls Castro. Val hans kemur því fáum á óvart, sem fylgst hafa með kúbverskum stjórnmálum.
605 þingmenn kúbverska þingsins komu saman í gær til tveggja sólarhringa fundarhalda, þar sem kosið var 31 manns ríkisráð. Ríkisráðið kaus síðan Díaz-Canel sem næsta forseta. Þingheimur allur mun svo greiða atkvæði um þá niðurstöðu ríkisráðsins í dag, en sú atkvæðagreiðsla er hreint formsatriði.
Forsetinn nýi hefur talað fyrir auknu fjölmiðlafrelsi, frjálsara aðgengi almennings að netinu og áframhaldandi þíðu í samskiptum við Vesturlönd, ekki síst Bandaríkin. Engu að síður telja stjórnmálaskýrendur ólíklegt að hann muni beita sér fyrir miklum eða hröðum breytingum, segir í frétt AFP-fréttastofunnar, að minnsta kosti fyrsta kastið.