Tímalína: Saga Wikileaks og Assange

18.04.2019 - 13:30
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Julian Assange, stofnandi Wikileaks, situr nú í gæsluvarðhaldi í Bretlandi eftir að hafa verið handtekinn í sendiráði Ekvadors 11. apríl síðastliðinn. Þar hafði hann haft pólitískt hæli í nærri fimm ár.

Wikileaks hefur staðið fyrir fjölda leka á opinberum leyniskjölum, flestum innan úr stjórnkerfi Bandaríkjanna, frá stofnun samtakanna árið 2006. Saga Wikileaks tengist Íslandi sterkum böndum enda hafa íslenskir blaðamenn og aðgerðasinnar verið virkir í samstarfi með samtökum Assange.

Hér að neðan er saga Wikileaks tíunduð og fjallað um stærstu atburði í sögu samtakanna.

Wikileaks og Assange 2006-2019

Október 2006

Julian Assange stofnar Wikileaks

Júlí 2009

Lánabók Kaupþings birt

Wikileaks birtir lánabók Kaupþings í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. Í lánabókinni var að finna upplýsingar um lán til rúmlega 200 viðskiptavina Kaupþings og hún sýndi hversu óábyrgar lánveitingar bankans hefðu verið. Sett var lögbann á umfjöllun RÚV upp úr lánabókinni.

Apríl 2010

Þyrluárásin í Bagdad

Wikileaks birtir myndskeið sem sýna bandarískar árásarþyrlur ráðast á almenna borgara í Bagdad árið 2007. Meðal fórnarlamba voru fréttaljósmyndari og fréttamaður Reuters-fréttastofunnar. Myndskeiðið var unnið og sýnt fyrst hér á landi og vakti heimsathygli.

Maí 2010

Chelsea Manning handtekin

Bandaríski hermaðurinn Chelsea Manning er handtekin af bandaríska hernum sem réttar yfir henni fyrir að leka myndskeiðinu af þyrluárásinni til Wikileaks.

Júlí 2010

Leynigögn um stríðsrekstur í Afganistan

Wikileaks birtir mikið magn af leynigögnum Bandaríkjahers um stríðsrekstur í Afganistan. Birting gagnanna vöktu hörð viðbrögð bandarískra yfirvalda.

Ágúst 2010

Svíar vilja handtaka Assange

Sænsk yfirvöld gefa út handtökutilskipun á hendur Assange eftir að tvær sænska konur ásaka hann um nauðgun. Assange neitar ásökunum og honum er leyft að yfirgefa landið. Assange segir ásakanirnar hluta af ófrægingarherferð gegn Wikileaks.

Október 2010

Leynigögn um stríðið í Írak

Wikileaks birtir mikið magn af leynigögnum sem varðar stríðsrekstur bandaríska hersins í Írak.

Nóvember 2010

Leynigögn um diplómatísk tengsl

Wikileaks birtir trúnaðargögn úr bandarískum sendiráðum vítt og breitt um heiminn. Meðal gagnanna eru trúnaðarskjöl úr bandaríska sendiráðinu á Íslandi um viðræður staðgengils bandaríska sendiherrans, íslenskra fulltrúa og sendiherra Breta um Icesave-málið.

Desember 2010

Assange í stofufangelsi

Eignir Assange eru frystar og daginn eftir gefur hann sig fram við bresku lögregluna en er látinn laus gegn tryggingu aðeins 10 dögum síðar. Lögfræðingar hans og stuðningsmenn Wikileaks leggja fram 40 milljóna krónur til að fá hann lausann. Assange fer í stofufangelsi, þarf að bera ökklaband, er í útgöngubanni eftir sólsetur og þarf að gefa sig fram á lögreglustöð einu sinni á sólarhring.

Janúar 2011

Brotist inn í tölvukerfi Alþingis?

Varaformaður og þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks fara fram á frekari upplýsingar á þingfundi um fartölvu sem fundust í húsnæði Alþingis árið áður og að grunur hefði leikið á því að brjótast hafi átt inn í tölvukerfi Alþingis. Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, nefnir það í ræðu að Assange og aðrir liðsmenn Wikileaks hefðu verið gestir í byggingunni á þessum tíma.

Febrúar 2011 - maí 2012

Bretar geta framselt Assange

Héraðsdómur í Bretlandi tilkynnir í febrúar að bresk yfirvöld geti framselt Assange frá Bretlandi til Svíþjóðar. Áfrýjunardómstóll kemst að sömu niðurstöðu í nóvember sama ár og hæstiréttur Bretlands úrskurðar í desember að Assange sé heimilt að áfrýja framsalsdómi til réttarins. Í maí 2012 úrskurðar hæstiréttur Assange í óhag.

Júní 2012

Assange fær pólitískt hæli í sendiráði Ekvador

Assange brýtur skilyrði reynslulausnar og leitar skjóls í sendiráði Ekvador í Lundúnum eftir að hæstiréttur Bretlands hafnar beiðni lögmanna hans um að taka framsalsbeiðni sænskra stjórnvalda fyrir að nýju. Rafael Correa, þáverandi forseti Ekvador, ákveður að veita Assange pólitískt hæli.

Febrúar 2013

FBI vildi gera Sigga að tálbeitu

Sigurður Ingi Þórðarson, Siggi hakkari, segir frá því á fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis að fulltrúar frá FBI hafi yfirheyrt sig hér á landi í ágúst 2011 og reynt að fá sig til að gerast tálbeita innan raða Wikileaks. Sigurður segist margs sinnis hafa hitt fulltrúa FBI og fengið borgað fyrir að veita þeim upplýsingar sem tengdust Wikileaks.

Maí 2013

Snowden lekur gögnum

Gögn um viðamiklar persónunjósnir Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna birtast í fjölmiðlum eftir að Edward Snowden, starfsmaður CIA, lekur þeim í fjölmiðla. Wikileaks aðstoðar Snowden að fara huldu höfði.

Júlí 2013

Manning dæmd

Chelsea Manning dæmd í 35 ára fangelsi fyrir njósnir.

Júní 2015

Hleruðu síma evrópskra leiðtoga

Wikileaks birtir gögn sem sýna að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna hleraði síma evrópskra þjóðarleiðtoga, þar á meðal Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og Francois Hollande, þáverandi Frakklandsforseta.

Júlí 2015

Hleruðu embættismenn í Brasilíu

Wikileaks birtir gögn sem sýna að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna hleraði síma tuga ráðherra og hátt settra embættismanna í Brasilíu.

Mars 2016

Tölvupóstum Clinton lekið

Wikileaks birtir gagnagrunn með yfir 30 þúsund tölvupóstum send í og úr persónulegum tölvupósti Hillary Clinton þegar hún starfaði sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Birtingin kemur í miðri kosningabaráttu Clinton til embættis Bandaríkjaforseta.

Júlí 2016

20 þúsund tölvupóstar

Wikileaks birtir um 20 þúsund tölvupósta flokksstjórnar Demókrataflokksins.

Janúar 2017

Obama mildar dóminn

Barack Obama, þáverandi Bandaríkjaforseti styttir dóm yfir Chelsea Manning, sem setið hefur í fangelsi í rúm sex ár, um 30 ár.

Mars 2017

Leyniþjónustan njósnaði um almenning

Wikileaks birtir þúsundir skjala um njósnir bandarískra leyniþjónustustofnana um almenning. Meðal annars eru upplýsingar frá árunum 2013-2016 um hvernig CIA braust inn í raftæki fólks, svo sem snjallsíma og sjónvörp. Bandaríska alríkislögreglan FBI og bandaríska leyniþjónustan CIA hefja glæparannsókn á því hvernig upplýsingunum var lekið.

Maí 2017

Manning sleppt

Chelsea Manning er sleppt úr haldi eftir sjö ára fangelsisvist í Fort Leavenforth-herfangelsinu í Kansas.

Maí 2017

Svíar hætta rannsókn á Assange

Ákæruvaldið í Svíþjóð hættir að rannsaka ásakanir um nauðganir á hendur Assange. Breska lögreglan segir að henni beri samt sem áður skylda til að handataka Assange stígi hann fæti út fyrir sendiráðið þar sem handtökuskipun sem gefin var út á hendur honum árið 2012 hafi enn ekki verið felld úr gildi.

Febrúar 2018

Afnema ekki handtökuskipun

Dómstóll í Lundúnum hafnar að afnema handtökuskipun á hendur Assange þar sem hann er sagður hafa brotið gegn skilyrðum um að fá að ganga laus geng tryggingu.

Mars 2018

Fær ekki lengur að fara á netið

Assange er sviptur netaðgangi sínum í sendiráði Ekvadors. Í yfirlýsingu frá sendiráðinu segir að Assange hafi svikið loforð frá því í fyrra um að skipta sig ekki af málefnum annarra ríkja meðan á dvöl hans stæði.

Júlí 2018

Upplýsingum lekið úr Wikileaks

Blaðamaðurinn Emma Best birtir 11 þúsund Twitter-einkaskilaboð sem fóru á milli innanbúðarfólks hjá Wikileaks á árunum 2015-2017. Sérstaka athygli vekja skilaboð sem Assange skrifar í nafni Wikileaks-samtakanna um að þau hafi hrundið af stað atburðarás sem muni leiða til þess að Bandaríkin, Bretland, Svíþjóð, Rússland og Kína sameinist gegn mannréttindakerfi Sameinuðu þjóðanna og eyðileggi það.

September 2018

Kristinn Hrafnsson verður ritstjóri

Assange skipar Kristinn Hrafnsson ritstjóra Wikileaks. Kristinn sem hefur starfað sem talsmaður Wikileaks um árabil og segir að það eigi eftir að koma í ljós hvort um tímabundna ráðningu sé að ræða eða ekki.

Nóvember 2018

Ekvador gefur undan þrýstingi

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, heimsækir Assange í sendiráð Ekvadors í Lundúnum. Í viðtali við Der Spiegel segir Kristinn að stjórnvöld í Ekvador séu að reyna brjóta Assange niður og hann sé sífellt meira einangraður innan veggja sendiráðsins. Kristinn segist telja stjórnvöld verða æ líklegri til að láta undan þrýstingi bandarískra og breskra yfirvalda um framsal hans. Der Spiegel segir Assange hafa takmarkað aðgengi að síma og gestir hans megi heldur ekki hafa með sér síma eða önnur raftæki.

Desember 2018

Samkomulag um að Assange fari úr sendiráðinu

Lenin Moreno, forseti Ekvador, segir að samkomulag hafi náðst um að Assange gæti yfirgefið sendiráð Ekvadors í Lundúnum eftir sex ára dvöl þar. Lögmenn Assange hafna samkomulaginu en þeir hafa áður sagt að ekki verði gert samkomulag sem feli í sér framsal Assange til Bandaríkjanna.

Apríl 2019

Assange handtekinn í sendiráðinu

Assange er handtekinn innan veggja sendiráðs Ekvador í Lundúnum eftir að hafa dvalið þar í sjö ár. Stjórnvöld í Ekvador ákveða að veita honum ekki lengur diplómatíska vernd og gera honum að yfirgefa sendiráðið. Assange er handtekinn á grundvelli ákæru á hendur honum í Bandaríkjunum, en bandaríska dómsmálaráðuneytið segir hann sekan um samsæri um þjófnað á gögnum úr tölvum hins opinbera í samstarfi við Chelsea Manning.

Fanney Hólmfríður Kristjánsdóttir
birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi