Tilþrif, pólitík og úrvals tónlist

Mynd: Leikfélag Akureyrar / Leikfélag Akureyrar

Tilþrif, pólitík og úrvals tónlist

29.10.2018 - 19:50

Höfundar

Samkomuhúsið á Akureyri umbreyttist í Broadway eina kvöldstund þegar söngleikurinn Kabarett var frumsýndur þar á föstudag. Hlín Agnarsdóttir gagnrýnandi segir sýninguna vel heppnaða. Akureyringar geti vel við unað og hljóti nú að streyma stoltir í leikhúsið sitt.  

Hlín Agnarsdóttir skrifar:

Marta Nordal hefur nýlega tekið við stjórnartaumunum hjá Leikfélagi Akureyrar og ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur, eins og hún orðar það sjálf í leikskrá með uppsetningu hennar á söngleiknum Kabarett eftir Joe Masteroff og John Kander. Í sömu leikskrá gerir þýðandi verksins, Karl Ágúst Úlfsson, ágætis grein fyrir tilurð söngleiksins en efni hans er upphaflega sótt í skáldsögu breska rithöfundarins Christopher Isherwood, Goodbye to Berlin frá 1939.

Söngleikurinn sjálfur var svo frumsýndur á Broadway 1966 og fór fljótt sigurför um heiminn. Hann gerist á síðustu dögum Weimar-lýðveldisins í Þýskalandi, í aðdraganda nasismans. Þetta er í annað sinn sem söngleikurinn er settur upp á Akureyri en hann hefur áður verið settur upp í Borgarleikhúsinu. Uppsetning hans nú minnir okkur á að fasismi, popúlismi og lýðskrum á um þessar mundir greiðan aðgang að mörgum samfélögum heims með tilheyrandi kynþáttahatri og ofbeldi sem sprettur af fáfræði og andvaraleysi.

Og þannig er það einnig í þessu verki, það er einungis hinn skyggni rithöfundur Cliff Bradshaw sem sér hvert stefnir í aðdraganda þriðja ríkisins, hann er myndavélin sem tekur myndirnar af ástandinu. Hann er staddur í Berlín og leigir sér herbergi hjá frú Schneider og veit ekki fyrr en samlanda hans, Sally Bowles, frjálslynd kabarettsöngkona, er komin inn á gafl hjá honum. Úr verður ástar- og vináttusamband en mikið frelsi var ríkjandi á þessum tímum í kynferðismálum, samkynhneigð ekki litin hornauga en allt þetta er undirstrikað í efnisþræði og atburðarás söngleiksins.

Það er sem sagt fjölbreytt skemmtanalífið í Berlín þessa tíma, saman fara erótík, ósvífni og pólitísk ádeila á kabarettsýningunum sem er meginuppistaða söngleiksins og myndar umgjörð um hann. Allt kemur þetta fram í hlutverki skemmtanastjórans sem er eitt mikilvægasta hlutverk söngleiksins, hann er sú persóna sem keyrir allt áfram í Kit Kat klúbbnum með söngvum, dönsum og dónalegum bröndurum. Auk þeirra persóna sem hér hafa verið nefndar kemur við sögu ávaxtakaupmaðurinn og gyðingurinn herra Schultz, vonbiðill frú Schneider, sem verður fórnarlamb ofsókna og ofbeldis nasistanna en fyrir þeim fer persónan Ernst Ludwig.  

Aðalatriðið í þessari sýningu er auðvitað músíkin og öllu máli skiptir að rétt sé skipað í helstu aðalhlutverkin, það verða að vera leikarar og söngvarar sem ráða við flutning tónlistarinnar sem er ekki endilega sú léttasta í heimi, jafnvel þótt mörg númerin hafi náð miklum vinsældum og séu löngu orðin heimsþekkt. Hver þekkir ekki númer eins og Willkommen, The Money song og Cabaret? Hlutverkaskipan hefur tekist í aðalatriðum vel. Ungum og nýútkrifuðum leikara, Hákoni Jóhannessyni, er fengið hlutverk skemmtanastjórans sem hann skilar af miklum krafti. Hann hefur sterka útgeislun á sviði og heldur uppi gáskafullu fjörinu á Kit Kat klúbbnum af lævísi og lipurð.

Stjarna kvöldsins er þó tvímælalaust Ólöf Jara Skagfjörð í hlutverki Sallýjar. Hún syngur geysilega vel og af miklu öryggi, hefur bjarta og stóra rödd, er enn fremur glæsileg á sviði og sýndi tilþrifamikinn leik. Það sama má segja um Andreu Gylfadóttur í hlutverki leigusalans frú Schneider. Andrea smellpassar í hlutverkið og er pottþétt á leiksviðinu með sína djúpu og hásu rödd. Hjalti Rúnar Jónsson var geðugur í hlutverki Cliffs, þó ekki eins litsterkur og konurnar, sýndi þó klærnar undir lokin þegar í nasistaeðli Hans Ludwig kemur í ljós. Karl Ágúst Úlfsson dró upp hlýja og fallega mynd af herra Schultz sem vakti bæði kátínu og samúð áhorfenda. Aðrir leikarar og dansarar stóðu sig með mestu prýði í vel heppnuðum dansatriðum Lees Proud. Tíu manna hljómsveit skipuð úrvals hljóðfæraleikurum situr á baksviðinu en tónlistarstjórn er í höndum Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar. Hljómsveitin lék listavel músík verksins og afar gott jafnvægi ríkti milli hennar og söngvaranna.

Svið Samkomuhússins er lítið og það þarf mikla útsjónarsemi til að koma öllum atriðum leiksins fyrir. Það tekst sannarlega hjá Auði Ösp Guðmundsdóttur sem hannar mjög þénuga en einfalda leikmynd sem samanstendur í meginatriðum af tveimur færanlegum flekum sem nýtast sem allar vistarverur leiksins og gegna margs konar hlutverkum. Sviðslausnir hennar miðast við að skiptingar gangi hratt og greiðlega fyrir sig og sviðið er stækkað eða minnkað allt eftir þörfum með léttum snúningi flekanna og frábærri notkun á leikmunum. Og Auður Ösp á líka heiðurinn af búningum sýningarinnar sem voru viðeigandi og djarfir og skapa heillandi andrúmsloft og áferð horfins tíma sem þó stendur okkur nær. Ljósahönnun Ólafs Ágústs Stefánssonar styður vel allar grunnhugmyndir listrænna stjórnenda við sviðsetningu söngleiksins.

Miðað við aðstæður og ófullkomið leiksviðið tæknilega séð er sýningin öll vel af hendi leyst hjá bæði Auði og leikstjóranum Mörtu Nordal sem nýtur góðs af því að hafa sett upp fjölmargar sýningar á litlum sviðum. Akureyringar geta vel við unað og hljóta nú að streyma stoltir í leikhúsið sitt.