Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Tilraun til að hafa áhrif á störf dómstóla

06.12.2016 - 09:27
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Formaður Dómarafélags Íslands segir ljóst að upplýsingum um hlutabréfaeign dómara hafi verið komið á framfæri við fjölmiðla í þeim tilgangi að hafa áhrif á störf dómstóla og hugsanlega auka möguleika á því að mál verði endurupptekin. Dómarar við hæstarétt, sem fjallað var um í Kastljósi í gær, verði að gera hreint fyrir sínum dyrum.

Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og fjórir aðrir dómarar við Hæstarétt áttu í viðskiptum með hlutabréf í bönkunum fyrir hrun. Þetta kom fram í Kastljósi í gærkvöldi. Þá kom fram að svo virðist sem tilkynningar um hlutabréfaeignina hafi ekki borist sérstakri nefnd dómara sem heldur utan um upplýsingar sem þessar.

Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands, benti á, í Morgunútvarpinu á Rás 2, að í umfjöllun Kastljóss hefðu verið sýnd gögn sem bendi til þess að dómararnir hafi tilkynnt um eignarhluti sína. Staða málsins í dag sé óljós. „Það er býsna óljóst að mínu mati hvað var tilkynnt og hvort þessir dómarar vanræktu sína tilkynningaskyldu,“ segir Skúli. 

Fram kom í umfjölluninni að nefnd um dómarastörf kannist ekki við að Markús hafi tilkynnt um hlutabréfaeign sína. „Það er auðvitað afskaplega alvarlegt mál ef opinber stofnun heldur ekki utan um tilkynningar sem henni berast samkvæmt lögum. Ég get ekki orðað það öðruvísi,“ segir Skúli. „Þetta er afskaplega dapurlegt ef þetta er raunin ef þessi nefnd hefur ekki haldið utan um sínar upplýsingar. Ég verð að segja það sem formaður Dómarafélagsins að jafnvel þótt þessi nefnd sé ekki mikil að burðum og jafnvel þótt við séum undirfjármögnuð og höfum lítinn mannafla innan dómkerfisins þá hlýtur að vera hægt að halda utan um svona gögn sem berast til nefndar, jafnvel þótt hún sé fáliðuð og hafi litla aðstoð. Ef þetta er rétt að það hefur ekki verið haldið með skipulegum hætti utan um þessar tilkynningar þá er það brot á reglum út af fyrir sig. Og þá verð ég að segja aftur sem formaður Dómarafélagsins að þá er það hin opinbera stofnun sem ber hallann af því. Auðvitað halda dómarar utan um sín gögn en hér erum við að tala um tilkynningar sem eru orðnar 10 ára gamlar. Þannig að ef dómarar finna þetta ekki í sínum fórum og það eru engar skrár til hjá þessari nefnd þá held ég að við verðum að sýna dómurum einhvern skilning ef þeim gengur illa að finna þessi gögn,“ segir Skúli.

Hann tekur ekki undir fullyrðingar um að hlutafjáreignin hafi gert dómarana vanhæfa til að dæma í málum sem tengdust hruninu. „Ég sé ekki alveg hvernig þetta fjárhagslega tjón fyrir hrun eða við hrunið, hvernig það tengist meðferð þessara sakamála. Mér finnst það pínulítið langsótt,“ segir Skúli. 

Umfjöllunin sé óheppileg fyrir ásýnd dómstóla. „Það er ljóst að þarna hefur upplýsingum verið komið á framfæri við fjölmiðla í þeim tilgangi að hafa áhrif á störf dómstóla og hugsanlega ýta við möguleikum á því að endurupptaka þessi mál,“ segir Skúli. „Það sem við hljótum að bíða eftir núna er að þessir dómarar, sem eiga í hlut, hreinlega geri hreint fyrir sínum dyrum og segi okkur bæði kollegum sínum, dómurum, og samfélaginu og hvort þeir tilkynntu þetta eða ekki. Síðan er það annað mál hvort þeir voru vanhæfir í einstökum málum eða ekki og það er eitthvað sem þarf að skoða með tilliti til hvers og eins máls,“ segir Skúli.