Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Tillögur um framtíð Kársness birtar á ensku

03.02.2016 - 20:31
Skjáskot úr vinningstillögu um uppbyggingu á Kársnesi.
 Mynd: Kópavogsbær
Kópavogsbær birti vinningstillögur um skipulag á Kársnesi eingöngu á ensku. Varaformaður Íslenskrar málnefndar segir að þetta geti varla talist eðlilegt. Bagalegt sé að birta slíkar upplýsingar ekki á íslensku.

Hluti af norrænni samkeppni

Fjórar vinningstillögur að byggð á Kársnesi í Kópavogi voru kynntar í dag. Keppnin er hluti af samnorrænni samkeppni sem nefnist Nordic Built Cities. Keppnisgögn, ásamt kynningartexta, eru birt á sérstakri kynningarsíðu á vef Kópavogsbæjar. Allur texti er á ensku, hvort sem er lýsingar á einstökum tillögum eða skýringartexti við myndir.

Íslenska er opinbert mál stjórnvalda, bæði ríkis og sveitarfélaga, samkvæmt lögum um stöðu íslenskrar tungu. Þar segir að ríki og sveitarfélög beri ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og eigi að sjá til þess að hún sé notuð.

Þarf að vera hægt að ræða arkitektúr á íslensku

Ármann Jakobsson, varaformaður Íslenskrar málnefndar, segir í samtali við fréttastofu að það geti varla talist eðlilegt að Kópavogsbær birti upplýsingarnar á ensku, í ljósi þeirrar afstöðu nefndarinnar að hasla eigi íslenskunni völl sem víðast. „Íslenskunni þarf að vinna land á öllum sviðum. Það þýðir að það verður að vera hægt að ræða um arkitektúr og alls konar sérsvið á íslensku,“ segir Ármann. Þar af leiðandi sé mjög mikilvægt að tækifærið sé notað og íslenskt efni gefið út í hvert sinn. Almenn afstaða nefndarinnar sé að það sé bagalegt að til dæmis löng skýrsla um alþjóðlega keppni sé eingöngu á ensku.

Settu inn efni á íslensku eftir ábendingu

Sigríður Björg Tómasdóttir, almannatengill Kópavogsbæjar, segir í svari við fyrirspurn fréttastofu að keppnin sé alþjóðleg, og þess vegna hafi öll gögn í tengslum við hana verið á ensku. Frétt um keppnina, og úrslit hennar, sé að finna á forsíðu vefs Kópavogsbæjar, þar sem einnig megi lesa niðurstöður dómnefndar og rökstuðning á íslensku.

Þessar upplýsingar segja hins vegar lítið um efni vinningstillagnanna. Eftir fyrirspurn fréttastofu ákváðu forsvarsmenn Kópavogsbæjar að birta efni á íslensku á kynningarsíðunni, og skömmu áður en þessi frétt birtist var búið að setja stuttan inngangstexta um niðurstöðurnar efst á síðuna.

Ekki fyrsta plagg stjórnvalda á ensku á þessu ári

Ármann segir að eðlilega verði að taka tillit til alþjóðlegrar samkeppni, en það tillit geti ekki verið þannig að ekkert alþjóðlegt eigi að vera á íslensku. „Það sem er ætlað erlendum lesendum þarf auðvitað að vera á málum sem þeir skilja, en ef í sjálfu sér allt alþjóðasamstarf á að leiða til þess að íslenska sé ekki notuð, þá erum við farin að þrengja það svið, þar sem hún er notuð, ansi mikið,“ segir Ármann.

Samráðshópur um áhrif viðskiptaþvingana Rússa á íslenskt atvinnulíf tók í janúar við skýrslu á ensku, þótt hún hafi verið unnin á Íslandi. Guðrún Kvaran, formaður Íslenskrar málnefndar, sagði þá í fréttum Ríkisútvarpsins að það væri brot á lögunum að hið opinbera tæki við skýrslum á ensku sem væru unnar hér á landi. Formaðurinn sendi utanríkisráðherra bréf vegna málsins.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV